Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, opinberaði á ársfundi Landsvirkjunar í dag að ríkisstjórnin hefði samþykkt á fundi sínum fyrir nokkrum vikum að hefja viðræður um kaup ríkisins á eignarhlutum í Landsneti.
Landsnet er í meirihlutaeigu Landsvirkjunar og á og rekur allar meginflutningslínur rafmagns hér á landi, en fram kom í máli ráðherra að starfshópur verði skipaður á næstunni til þess að leiða viðræður um kaup ríkisins á fyrirtækinu.
Ráðherra óskaði einnig Landsvirkjun og starfsmönnum fyrirtækisins til hamingju með glæsilega rekstrarniðurstöðu í ávarpi sínu.
Hún ræddi einnig um þriðja orkupakkann og sagði að þó að umræðan um hann hefði á stundum „farið út um víðan völl“ væri það kostur að hún hefði orðið til þess að bent var á hvað fólst í fyrsta og öðrum orkupakkanum.
„Orkupakkarnir voru ekkert annað en markaðspakkar, og sá þriðji er það líka,“ sagði ráðherra og bætti við að samkeppni á raforkumarkaði hefði aukist frá samþykkt fyrri pakkanna. Stærri raforkunotendur hefðu sérstaklega hagnast á þessari auknu samkeppni og sparað sér fé með útboði á rafmagnsstarfsemi sinni, auk þess sem heimili hefðu nú val um það hvar rafmagn væri keypt og að samkeppnin á markaði væri slík að það væri ekki í boði fyrir raforkuseljendur að bjóða upp á of hátt verð.
Þórdís Kolbrún sagðist hafa heyrt af því að hópur fólks sem ætlaði að berjast gegn samþykkt þriðja orkupakkans á Alþingi ætlaði að fara fram undir slagorðinu „Okkar orka“ og sagðist hún túlka þau skilaboð sem svo að þessi hópur teldi orkuauðlindina af sama meiði og fiskinn í sjónum, þ.e. í sameign þjóðarinnar. Svo er ekki, sagði ráðherra, og lagði áherslu á að vatnsafl og jarðvarmi og nýtingarréttur af þeirri auðlind væri í hendi landeigenda.
Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða. Fyrirtækið starfar samkvæmt sérleyfi og er háð eftirliti Orkustofnunar sem ákveður tekjumörk sem gjaldskrár byggja á. Eignarhlutir í fyrirtækinu eru eftirfarandi:
Landsvirkjun 64,73%
RARIK 22,51%
Orkuveita Reykjavíkur 6,78%
Orkubú Vestfjarða 5,98%