Engin formleg leit hefur farið fram í Ölfusá í dag að Páli Mar Guðjónssyni sem talinn er hafa ekið bifreið sinni út í ána á mánudagskvöld.
Að sögn Odds Árnasonar, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Suðurlandi, hefur þó verið eftirlit með ánni í dag og svo verður áfram á morgun. Í dag hefur fyrst og fremst verið fundað þar sem björgunaraðilar ráða ráðum sínum um næstu skref.
Oddur segir að um helgina sé fyrirhuguð stór leit sem margir munu koma að. Er það í höndum svæðisstjórnar að skipuleggja leitina, en fram að því verði áin vöktuð.
Í gær var ítarlega farið yfir leitarsvæðið en leit var hætt við myrkur. Efnt hefur verið til bænastundar í Selfosskirkju í kvöld vegna Páls.