Spyr ráðherra um hvali og áhrif hvalveiða

Guðmundur Andri Thorsson.
Guðmundur Andri Thorsson. mbl.is/Hari

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram fyrirspurnir til ráðherra á Alþingi um hvali og hvalveiðar.

Annars vegar er um að ræða fyrirspurnir til Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu. Spyr Guðmundur hvort ráðherra telji ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að heimila áframhaldandi hvalveiðar rétta í ljósi stöðu ferðaþjónustunnar. Þá sérstaklega vegna þess að hvalir eru aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem tugþúsundum saman fara í hvalaskoðun víðs vegar um landið.

Þá spyr Guðmundur hvort ráðherra telji þessa ákvörðun geta haft áhrif á ímynd Íslands út á við, þar á meðal ímynd íslenskrar ferðaþjónustu og íslenskra afurða.

Guðmundur Andri beinir svo hins vegar fyrirspurnum til Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, um hvali. Spyr Guðmundur hvort ráðherra telji það verjandi að heimilaðar hafi verið veiðar á 209 langreyðum og 217 hrefnum í ljósi þeirra upplýsinga frá Hafrannsóknastofnun að hrefnu hafi fækkað mikið á grunnsævi við Ísland frá síðustu aldamótum.

Þá spyr Guðmundur einnig hvort ráðherra telji ástæðu til þess að skoða breytingar á lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þannig að hvalir falli þar einnig undir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert