Vill tafarlausa endurskoðun launanna

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við þá stöðu sem upp er komin verður ekki unað. Traust og trúnaður verður að geta ríkt milli þeirra sem falin er stjórn mikilvægra félaga og þeirra stjórnvalda er bera ábyrgð á starfsemi þeirra sem eigandi,“ segir í bréf Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra til Bankasýslunnar vegna launaákvarðana og starfskjarastefnu bankanna. Fjármálaráðuneytið telji að tafarlaust eigi að endurskoða launaákvarðanir þeirra.

„Launaákvarðanir bankanna hafa nú þegar haft veruleg neikvæð áhrif á orðspor þeirra og þannig valdið þeim skaða, auk þess sem þær sendu óásættanleg skilaboð inn í þær kjaraviðræður sem nú standa yfir,“ segir enn fremur. Ráðherrann segir að af svörum bankaráðs Landsbankans og stjórnar Íslandsbanka til Bankasýslunnar megi ráða að viðmið í eigendastefnu ríkisins hafi verið túlkuð þröngt og einhliða og ákvarðanir um launasetningu ekki verið í samhengi við og tekið tillit til annarra mikilvægra þátta stefnunnar. Þannig hafi laun æðstu starfsmanna bankanna verið ákveðin úr hófi og leiðandi.

Tilmæli stjórnvalda ekki verið virt

„Fyrirtæki getur verið vel samkeppnishæft þó að laun séu talsvert undir hæstu launum í samfélaginu. Þegar rætt er um að laun skuli ekki vera leiðandi ber að líta til launasetningar í víðu samhengi og áhrifa af einstökum launaákvörðunum á launaþróun almennt, ekki síður en í þrengra tilliti. Þannig geta laun sem eru með því allra hæsta sem tíðkast á vinnumarkaði verið leiðandi, valdið víxlhækkunum launa og stuðlað að ómálefnalegum launaþrýstingi,“ segir Bjarni og vísar þar til orðalags eigendastefnunnar um samkeppnishæfa starfskjarastefnu.

„Það er enn fremur mat ráðuneytisins að bankarnir hafi með launaákvörðunum fyrir æðstu stjórnendur ekki virt þau tilmæli sem beint var til þeirra í upphafi árs 2017 og sem ítrekuð voru gagnvart nýkjörnum stjórnum síðar það sama ár, þar sem lögð var áhersla á hófsemi og varfærni um launaákvarðanir,“ segir enn fremur í bréfi ráðherrans.

Fer fjármálaráðherra fram á það við Bankasýslu ríkisins að hún komi þessari afstöðu fjármálaráðuneytisins á framfæri við stjórnir Landsbankans og Íslandsbanka „með afdráttarlausum hætti og enn fremur því, að ráðuneytið telji að bregðast eigi við þeirri stöðu sem upp er komin með tafarlausri endurskoðun launaákvarðana og undirbúningi að breytingum á starfskjarastefnum, sem lagðar verði fram á komandi aðalfundum bankanna.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gagnrýndi harðlega launastefnu Landsbankans og Íslandsbanka meðal annars í umræðum á Alþingi fyrr í þessum mánuði. Þar lagði hún áherslu á að tilmæli stjórnvalda um hófleg og samkeppnishæf laun væru í fullu gildi. Sagði hún laun bankastjóra bankanna í engu samræmi við veruleikann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert