Miklar líkur eru á að um 28% íslensks vinnumarkaðar verði fyrir verulegum breytingum eða að störf hverfi alveg vegna sjálfvirknivæðingar og að 58% starfa taki talsverðum breytingum vegna áhrifa tækni en aðeins 14% starfa breytist lítið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu nefndar forsætisráðherra um fjórðu iðnbyltinguna.
Skýrslan var kynnt á málþingi á Grand hóteli í morgun. Niðurstöður skýrslunnar spá fyrir um hvernig aukin sjálfvirknivæðing og gervigreind muni hafa áhrif á vinnumarkaðinn.
Nefnd um fjórðu iðnbyltinguna fékk aðstoð frá Hagstofu Íslands við að reikna út möguleg áhrif sjálfvirknivæðingar á grundvelli aðferðafræði OECD. Þær niðurstöður sýna að á Íslandi eru miklar líkur á að þriðja hvert starf íslensks vinnumarkaðar verði fyrir verulegum breytingum eða að störf hverfi alveg vegna sjálfvirknivæðingar. Þetta eru um 54.000 einstaklingar á vinnumarkaði miðað við árið 2017 og svipar þessu hlutfalli til áætlaðra áhrifa tækniframfara annars staðar á Norðurlöndunum. Einnig er því spáð að 58% starfa, sem ná til rúmlega 113.000 einstaklinga, taki talsverðum breytingum vegna áhrifa tækni en aðeins 14% starfa (tæplega 27.000 einstaklingar) breytist lítið.
Í skýrslunni segir að út frá þessari spá sé líka hægt að sjá að hópar í samfélaginu verða fyrir mismiklum áhrifum af þessum breytingum og skoðuð eru áhrif út frá menntun, kyni, aldri, búsetu og ríkisfangi. Líkamleg störf og störf sem fela í sér miklar endurtekningar eru líklegust til að verða sjálfvirknivædd.
Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að Ísland sé tæknilega vel í stakk búið til að taka þátt í fjórðu iðnbyltingunni en að stjórnvöld gegni mikilvægu hlutverki við að sjá til þess að gæðum af völdum tæknibreytinga verði skipt með sanngjörnum hætti.
„Ábyrgð stjórnvalda er mikil og það skiptir máli að við séum undirbúin undir þær tæknibreytingar sem nú þegar eru komnar í ljós með fjórðu iðnbyltingunni. Tæknin er komin til að vera og það skiptir máli hvaða ákvarðanir við tökum núna til að þau gæði sem verða til í kjölfar tæknibreytinga dreifist með réttlátum og jöfnum hætti. Það er í raun stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir að ávinningurinn skili sér til allra,“ er haft eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Skýrsla nefndar forsætisráðherra um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna