Talið er að á bilinu 100 til 150 manns hafi komið saman á Austurvelli í hádeginu þar sem stúdentar og framhaldsskólanema mótmæltu aðgerðaleysi í loftslagsmálum. Er þetta annan föstudaginn í röð sem fólk hópast saman á Austurvelli og mótmælir.
Landssamtök íslenskra stúdenta hafa boðað til mótmælanna og fram kemur að þau verði alla föstudaga.
Verkfallið er innblásið af hinni sænsku Gretu Thunberg, en skólaverkfall hennar hefur vakið mikla athygli. Nú þegar hafa tugþúsundir ungmenna farið að hennar fordæmi og flykkst út á götur til að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í baráttunni við loftslagsbreytingar, meðal annars í Belgíu, Bretlandi, Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og Svíþjóð.
„Við viljum sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji róttækar aðgerðir,“ kemur fram í lýsingu vegna mótmælanna á Facebook.