Reyna að staðsetja bílinn í Ölfusá

Átta til tólf björgunarsveitarmenn á tveimur bátum og tveimur sæþotum …
Átta til tólf björgunarsveitarmenn á tveimur bátum og tveimur sæþotum kembdu leitarsvæðið í ánni í gær og verður leitin með svipuðum hætti í dag. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Lögreglan, Björgunarfélag Árborgar, sérsveit ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslan og Brunavarnir Árnessýslu vinna nú að undirbúningi þess að reyna að staðsetja bíl Páls Mars Guðjónssonar í gjánni við Ölfusárbrú með fjölgeislamælingu á dýpt og lögun gjárinnar. Aðgerð sem þessi hefur ekki verið reynd áður í gjánni.

Þessir aðilar, auk fulltrúa Kranaþjónustu JÁVERKs á Selfossi funduðu með svæðisstjórn í gær þar sem ákvörðunin var tekin og vonast er til þess að mögulegt verði að fara í aðgerðina um miðja næstu viku, en taka þarf mið af veðurfarslegum aðstæðum og rennsli í ánni.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að framhald aðgerða neðan við brúna muni byggja á því hvaða árangur næst með mælingum en fyrir liggur að lögregla mun ekki heimila köfun í gjánni vegna þeirrar áhættu sem í henni fælist. „Það er að fara að frysta á fjöllum, þá minnkar í ánni og þá minnkar gruggið og straumurinn og það er það sem við erum bíða eftir,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn lögreglunnar á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.  

Leit að Páli Mar Guðjónssyni og bíl hans í Ölfusá …
Leit að Páli Mar Guðjónssyni og bíl hans í Ölfusá hefur staðið yfir frá því á mánudagskvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Leitarsvæðið fínkembt um helgina

Átta til tólf björgunarsveitarmenn á tveimur bátum og tveimur sæþotum kembdu leitarsvæðið í ánni í gær og verður leitin með svipuðum hætti í dag að sögn Odds. Um helgina verður leitarsvæðið fínkembt með stórum hópi leitarmanna og þá munu Landhelgisgæslumenn fljúga þyrlu  yfir leitarsvæðið á eftirlitsferðum sínum óháð öðrum leitaraðgerðum.

Leit hefur staðið yfir frá því á mánudagskvöld og hefur lögregla verið í nánu sambandi við aðstandendur Páls Mars frá því leit hófst. „Við höfum lagt upp úr því að vera í góðu samstarfi við aðstandendur í þessu máli, eins og öllum okkar málum, og þannig er þetta hægt. Aðstandendurnir eru hluti af teyminu sem er að vinna í þessu og það skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka