VLFA boðar einnig atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/Hari

Verkalýðsfélag Akraness ætlar að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um verkfallsboðun meðal félagsmanna sinna sem heyra undir kjarasamning sem félagið á við Samtök atvinnulífsins vegna veitinga-, gistiþjónustu og greiðasölustaða, afþreyingarfyrirtækja og hliðstæðrar starfsemi.

Atkvæðagreiðslan mun hefjast 29. mars og og standa til 5. apríl og ef kosning um verkfall verður samþykkt mun allsherjarverkfall þeirra sem heyra undir áðurnefndan kjarasamning skella á 12. apríl. Greint er frá þessu á vefsíðu félagsins.

Er um að ræða sambærilega atkvæðagreiðslu og var hjá Eflingu sem lauk í gær, þ.e. að atkvæðagreiðslan nær til mun víðari hóps en verkfallið sjálft mun taka til. Hafa Samtök atvinnulífsins mótmælt þeirri nálgun og verður mál fyrir félagsdómi, þar sem meðal annars verður skorið úr um það ágreiningsefni, þingfest í dag.

Kosningin um verkfallsboðunina er hluti af aðgerðaplani sem Verkalýðsfélag Akraness stendur sameiginlega að ásamt Eflingu, VR og Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Verkalýðsfélag Akraness mun auglýsa kosninguna og önnur útfærsluatriði þegar nær dregur kosningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert