Styrkur svifryks (PM10) er hár í dag samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg og Njörvasund/Sæbraut. Klukkan 14.00 var klukkutímagildi svifryks við Grensásveg 119,0 míkrógrömm á rúmmetra en sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
Í mælistöð við Njörvasund/Sæbraut var klukkutímagildið klukkan 14.00 106,4 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Egilshöll 33,4 míkrógrömm á rúmmetra. Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var svifryksgildi 13,1 míkrógramm á rúmmetra.
Almenningur er hvattur til að draga úr notkun einkabíls við aðstæður eins og þær eru núna; hægan vind, kulda og þurrar götur. Næstu daga er búist við svipuðu veðri og eru dagarnir kallaðir „gráir dagar“ vegna þess að líkur eru á því að loftmengun fari yfir heilsuverndarmörk.
Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum og börn ættu að forðast útivist í nágrenni stórra umferðargatna.
„Við erum á leiðinni inn í þetta klassíska svifryks- og loftmengunartímabil, þar sem borgin er að koma undan vetri,“ er haft eftir Svövu S. Steinarsdóttur og Kristínu Lóu Ólafsdóttur, heilbrigðisfulltrúum hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
„Svifrykið hefur verið nokkuð ráðandi í umræðunni og það gleymist gjarnan að tala um þá miklu mengun sem kemur frá útblæstri bíla, þ.e. köfnunarefnisdíoxíðmengun. Besta leiðin til að bregðast við því er að minnka bílaumferð og þær stofnanir sem standa að verkefninu telja að Gráir dagar séu liður í því að minnka loftmengun.“