Eitthvað hefur verið um að velviljaðir borgarar reyni upp á eigin spýtur að fanga álftina sem mbl.is greindi frá í gær að fest hefði gogginn í áldós. Íbúi í Urriðaholti sem fylgst hefur með álftinni biður fólk þó að gera slíkt ekki þar sem álftin fælist við slíkt og það geti spillt fyrir fyrirhuguðum björgunaraðgerðum.
Álftin, sem hefst við á Urriðakotsvatni, hefur verið með gogginn fastan í dósinni í a.m.k. tvær vikur og hafa íbúar í hverfinu haft talsverðar áhyggjur af að henni. Linda Hrönn Eggertsdóttir, hjúkrunarfræðingur og íbúi í Urriðaholti, segir nokkurn skrið þó vera kominn á málið nú.
„Garðabær er kominn í málið,“ segir hún og kveður björgunaraðgerðir í undirbúningi. Að þeim munu koma starfsmenn áhaldahúss bæjarins og dýralæknir frá Matvælastofnun, auk þess sem fulltrúi frá Náttúrufræðistofnun tekur þátt í aðgerðunum.
„Það er fullt af fólki búið að bjóða sig fram til aðstoðar með gúmmíbáta og net. Þannig að það verða næstu skref,“ segir hún. Eitthvað hefur verið um að velviljaðir borgarar reyni að fanga álftina í háf, en Linda biður fólk um að gera slíkt ekki. Segir hún álftina hafa fælst við slíkt og hafi nú hrakist frá stað sem gott hefði verið að fanga hana á og lengra út á vatnið.