Geta ekki vísað gestunum út á götu

Ferðamenn í miðborg Reykjavíkur.
Ferðamenn í miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræða um að beita verkbanni sem mótleik við skæruverkföllum Eflingar og VR gegn ferðaþjónustufyrirtækjum virðist ekki langt komin. Forystumenn í ferðaþjónustunni taka ekki undir orð sumra félagsmanna um að ekki sé hægt að bjóða ferðafólki upp á skerta þjónustu og réttast væri að beita verkbanni sem mótleik.

Kristófer Oliversson, formaður Samtaka fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir að fyrirtækin beri ábyrgð á því að gestir sem koma til landsins lendi ekki á götunni.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að verkbönnum yrði svarað með frekari verkföllum. Verkbönnum hefur verið beitt 15 sinnum á síðustu fjórum áratugum, oftast í sjómannadeilum, síðast í löngu verkfalli sjómanna árið 2017.

Sáttafundur á fimmtudag

Stefnt er að sáttafundi samflots Eflingar, VR og tveggja annarra félaga og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara nk. fimmtudag. Það er ekki vegna þess að líkur séu á samningum heldur vegna þess að þá rennur út sá 14 daga tími sem líða má án þess að sáttafundir séu haldnir. Samninganefndir á hinum armi kjaraviðræðna, Starfsgreinasambands, Landssambands verslunarmanna og iðnaðarmanna og SA, hafa verið á daglegum vinnufundum í Karphúsinu. Ágætis gangur er í vinnunni, að sögn Bryndísar Hlöðversdóttur ríkissáttasemjara, og verður fundum haldið áfram.

Skiptar skoðanir hjá fólki

Sitt sýndist hverjum um yfirvofandi verkföll, þegar rætt var við fólk í miðbæ Reykjavíkur. Reynir Albert Þórólfsson segir verkföll nauðsynleg, Benóný Haraldsson telur að þau muni hafa tilætluð áhrif en hjónin Anna María Káradóttir og Arnar Birgir Jónsson lýsa yfir áhyggjum vegna verkfallanna. „Eins og er vill maður frekar hugsa um stöðugleikann. Það er spurning hvort þetta sé tímabært núna,“ segir Anna í umfjöllun um vinnudeilurnar í  Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert