Sjálfstæðismenn leggja fram „kjarapakka“

Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, kynnti tillögurnar.
Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, kynnti tillögurnar. mbl.is/Eggert

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins vill að Reykjavíkurborg lækki útsvar og dragi úr gjöldum sem innheimt eru af íbúum. Þetta kom fram á kynningarfundi sem borgarstjórnarflokkurinn hélt í dag í ráðhúsinu undir yfirskriftinni „kjarapakkinn“.

Samkvæmt tillögunum vill borgarstjórnarflokkurinn að útsvarsprósenta í Reykjavík verði lækkuð úr 14,52% niður í 14% á næsta ári. Fram kemur að árlega myndi þetta skila árlega um 84 þúsund krónum í vasa fjölskyldu með tvo fyrirvinnandi á meðallaunum, en miðað er við meðallaun samkvæmt Hagstofu Íslands árið 2017 sem eru 706 þúsund krónur á mánuði.

Lagt er til að aðgerðin verði fjármögnuð með bættum innkaupum sem felast í auknu aðhaldi og útboðum á öllum sviðum borgarinnar, en heildarkostnaður aðgerðarinnar kemur ekki fram í kynningunni.

Borgarstjórnarflokkurinn leggur til að rekstrargjöld heimila verði einnig lækkuð um 36 þúsund krónur á hvert heimili í borginni árlega með lækkun á upphitunarkostnaði, raforkuverði, sorphirðugjaldi og vatnsgjaldi.

Í tillögunum er lagt til að 13 milljarða áformaðar arðgreiðslur frá fyrirtækjum borgarinnar verði frekar nýttar til að standa straum af lækkuninni en að koma til borgarinnar í formi arðgreiðslna.

Samtals er því um að ræða 120 þúsund krónur á ári fyrir heimili með tveimur fyrirvinnandi.

Til viðbótar er lagt til að samið verði við ríkið um kaup á Keldnalandi og að á svæðinu verði farið í tafarlausa uppbyggingu með áherslu á hagkvæmt húsnæði. Þá verði fallið frá sérstökum innviðagjöldum og byggingarréttargjöldum stillt í hóf. Fram kemur að þessar aðgerðir gætu mögulega lækkað húsnæðiskostnað um allt að 100 þúsund krónur á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert