Ákveðið hefur verið að rykbinda hluta af þjóðvegum og stofnbrautum í þéttbýli í Reykjavík í dag, en í gær var svifryk yfir heilsuverndarmörkum í höfuðborginni. Er magnesíumklóríði úðað á göturnar, en það hefur reynst vel við rykbindingu.
Rykbindingin hefst um hádegi, en þær götur sem á að rykbinda eru meðal annars Miklabraut, Sæbraut, hluti Reykjanesbrautar, Suðurlandsbraut og Bústaðavegur.
Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar er fólk beðið um að taka tillit til aksturs vinnuvéla í dag sem verða að störfum. Þá kemur fram að farið hafi verið í aðgerðirnar að ráðum viðbragðsteymis um loftgæði en það er samstarfsvettvangur Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar. Veðurhorfur næstu daga auka líkur á svifryki einkum þar sem umferðarhraði er mikill.
Í gær klukkan 14:00 var klukkutímagildi svifryks (OM10) við Grensásveg 119,0 míkrógrömm á rúmmetra en sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Njörvasund/Sæbraut var klukkutímagildið klukkan 14.00 106,4 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Egilshöll 33,4 míkrógrömm á rúmmetra. Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var svifryksgildi 13,1 míkrógramm á rúmmetra.