Eldsvoði á Eirhöfða

Slökkviliðsmaður að störfum á Eirhöfða í kvöld.
Slökkviliðsmaður að störfum á Eirhöfða í kvöld. mbl.is/​Hari

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út fyrir skömmu í húsnæði á Eirhöfða í Reykjavík vegna elds sem þar kom upp.

Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu var lið af öllum tiltækum stöðvum kallað út en hann hafði ekki upplýsingar um hversu mikill eldurinn er.

Nokkrar bílasölur eru á svæðinu. 

Uppfært kl. 23.23:

Eldurinn kom upp á bifreiðaverkstæði og var hann töluverður, að sögn varðstjóra slökkviliðisins. Búið er að slökkva hann.

Tilkynning um eldinn barst laust fyrir klukkan ellefu og voru þrír dælubílar sendir á vettvang, auk fjölda slökkviliðsmanna. Mikill svartur reykur tók á móti þeim og voru reykkafarar sendir inn. Komust þeir fljótt í eld, að sögn varðstjórans.

Unnið er við reykræstingu, auk þess sem verið er að tryggja að engar glæður séu í húsnæðinu.

Starfsmaður bifreiðaverkstæðisins var að koma að húsinu þegar hann varð var við eldinn og lét hann slökkviliðið vita.

hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert