Tiltölulega fámennar þjóðir eru að verða heilbrigðastar allra þjóða, samkvæmt grein sem Bloomberg-fréttastofan birti nýverið. Þegar þjóðum er raðað eftir tölum um heilbrigði, efnahag og hamingju eru fjölmennustu þjóðir heimsins og með öflug hagkerfi að færast aftar í röðina.
Samkvæmt heilbrigðisvísitölu Bloomberg eru Spánverjar nú heilbrigðasta þjóð í heimi með 92,8 stig, Ítalir í öðru sæti með 91,6 stig og Íslendingar í því þriðja með 91,4 stig.
Vellíðanarvísitala heimsins (Indigo vísitalan), sem fjárfestingafélagið LetterOne gaf út, setti Kanada í 1. sæti en 151 þjóð var metin. Ísland lenti í 3. sæti en Óman vermdi 2. sætið.
Tekið var tillit til þátta eins og hættu á sykursýki, lífslíkna, blóðþrýstings, offitu, þunglyndis, hamingju, áfengis- og tóbaksneyslu, hreyfingarleysis og eyðslu, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.