Hópur flóttafólks á Íslandi er saman kominn við skrifstofu Útlendingastofnunar í Hafnarfirði til þess að mótmæla því að fólki sé vísað úr landi og aðstæðum flóttafólks á Ásbrú. Boðað var til mótmælanna á Facebook-síðunni Refugees in Iceland.
„Við höfum óskað eftir fundi með stjórnvöldum og hlusta [sic] á kröfur okkar, en eina svarið sem við fáum er þögn,“ segir í lýsingu á mótmælunum á Facebook.
Hópurinn fer fram á að brottvísunum úr landi verði alfarið hætt, að allt flóttafólk fái umsókn sinni framgengt í kerfinu, að flóttafólk á Íslandi fái atvinnuleyfi og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þá vill hópurinn að flóttamannabúðunum á Ásbrú verði lokað.
Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglustöðinni á Dalvegi í Kópavogi, segir í samtali við mbl.is að lögreglan hafi vitað af mótmælunum fyrir fram og sent lögreglu á staðinn til að sinna eftirliti. Mótmælin hafa farið friðsamlega fram og hefur lögreglan ekki haft afskipti af mótmælendum.
Sami hópur stóð fyrir mótmælum í brottfararsal flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í síðasta mánuði þar sem mótmælin beindust gegn Icelandair sem hefur aðstoðað við brottvísanir flóttafólks.