„Leiðtogi í æskulýðsstarfinu flutti hugvekju sem hann kallaði Þú færð seint aftur annað líf, í tölvuleikjamessu á sunnudaginn og lagði út frá því að aðeins í tölvuleikjum hafi þátttakendur færi á fleiri lífum en einu,“ segir Guðmundur Örn Jónsson, sóknarprestur í Landakirkju í Vestmannaeyjum.
Í umfjöllun um messuhald þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann að vel hafi tekist til með tölvuleikjamessuna sem er þriðja messan af fjórum í þemamessum.
„Með þemamessunum fáum við fram ný sjónarhorn og náum fleira og fjölbreyttara fólki í kirkjuna,“ segir Guðmundur sem segir jákvætt að kirkjusókn í almennar messur hafi aukist milli ára þrátt fyrir að fermingarhópurinn sé óvenju lítill í ár og jafnvel sá minnsti ef mark sé tekið á því sem elstu menn muna. Kirkjusókn hafi aðeins minnkað á hátíðardögum kirkjunnar milli ára.