Vímuefni í nánast öllum tilvikum

Lögreglan handtók ökumann eftir umferðaróhapp í Mosfellsbæ en hann reyndist bæði undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Engin slys urðu á fólki í óhappinu, samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá því síðdegis í gær þangað til fimm í morgun.

Maður var handtekinn í hverfi 101 þar sem hann svaf inni á stigagangi. Hann var fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem rætt var við hann og honum í framhaldi sleppt.

Óskað eftir aðstoð lögreglu í hverfi 221 vegna konu í annarlegu ástandi fyrir utan fjölbýlishús. Eftir að sjúkralið skoðaði konuna fékk hún aðstoð lögreglu við að komast heim til sín.

Brotist var inn í hverfi 109 þar sem tölvubúnaði var stolið ásamt því að talsverðar skemmdir voru unnar innandyra. Innbrotsþjófurinn er ófundinn, samkvæmt dagbók lögreglu.

Lögreglunni barst tilkynning um grunsamlegar mannaferðir í hverfi 111 þar sem maður var að lýsa inn í bíla. Maðurinn fannst ekki, að sögn lögreglu. Tilkynnt var til lögreglu um rúðubrot í hverfi 112, bæði í bifreið og í íbúðarhúsnæði.

Sex ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur bifreiða annaðhvort undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu frá því síðdegis í gær þangað til í nótt. 

Einn þeirra var stöðvaður í hverfi 200. Hann reyndist undir áhrifum fíkniefna ásamt því að vera með fíkniefni meðferðis. Farþegi í bifreiðinni var einnig handtekinn vegna vörslu fíkniefna.

Ölvaður ökumaður var stöðvaður í hverfi 105 og reyndist hann einnig vera sviptur ökuréttindum. Ökumaður sem var stöðvaður í hverfi 101 reyndist undir áhrifum fíkniefna. Ökumaður bráðabirgðasviptur ökuréttindum á staðnum þar sem um ítrekunarbrot var að ræða. Auk þeirra voru þrír ökumenn, einn í hverfi 104, annar í 109 og sá þriðji í hverfi 111, stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert