Fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins á Suðurlandi hefur verið dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt með því að hafa á árunum 2011 til 2014 dregið sér samtals 9,34 milljónir af reikningum sjóðsins og fært á eigin reikning eða reikning annarra í eigin þágu. Samtals var um að ræða 13 millifærslur og greiddi sparisjóðsstjórinn meðal annars fyrir utanlandsferðir, bílaviðgerðir og aðrar skuldbindingar sem hann hafði stofnað til.
Sparisjóðsstjórinn, Pétur Ármann Hjaltason, játaði brot sín skýlaust fyrir dómi sem og bótakröfu Landsbankans, sem tók árið 2015 yfir eignir og skuldir sparisjóðsins. Þarf hann að greiða bankanum 9,34 milljónir auk vaxta.
Í ákæru málsins er greint nánar frá millifærslunum 13, en þar má meðal annars sjá að hann greiddi meðal annars 1,5 milljónir í október 2012 vegna skuldbindinga sem hann hafði persónulega stofnað til. Þá tók hann 4 milljónir út í reiðufé af reikningi viðskiptavinar í september árið 2013 og sagðist hann hafa afhent viðskiptavininum upphæðina. Síðar hafi hann millifært 4,5 milljónir af reikningi sparisjóðsins inn á umræddan reikning.
Í júní árið 2014 millifærði Pétur svo 1,7 milljónir af reikningi sjóðsins yfir á annan reikning vegna persónulegra kaupa hans.
Aðrar millifærslur eru á bilinu 55 þúsund upp í 305 þúsund.
Fram kemur í dóminum að rannsókn málsins hafi klárast á haustmánuðum 2016, en að ákæra hafi hins vegar ekki verið gefin út fyrr en í byrjun árs 2019 án þess að hægt sé að rekja þá seinkun til ákærða. Er sá dráttur talinn vera verulegur, enda hafi Pétur frá upphafi rannsóknar verið samvinnufús og játað brot sín.
Þykir hæfileg refsing því tíu mánuðir og að skilorðsbinda refsinguna.