Dekkjarisi á leið í gjaldþrot

Sólning var einn stærsti dekkjainnflytjandi landsins.
Sólning var einn stærsti dekkjainnflytjandi landsins. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirtækið Sólning sem flytur inn hjólbarða er gjaldþrota og var lokað í gær. Þetta staðfestir Gunnar S. Gunnarsson framkvæmdastjóri. Um 8 manns missa vinnuna og fengu þeir greidd laun fyrir síðasta mánuð, að sögn Gunnars. 

„Það er búið að tryggja að þetta sé sem auðveldast fyrir starfsmenn,“ segir Gunnar. Síðasta árið var erfitt í rekstri og samdrátturinn í síðasta mánuði nam 40%.

„Það hefur verið lítil sala á dekkjum frá því síðasta vor. Þetta er fjárfrekur bisness, t.d. eru öll vetrardekk keypt inn í einu. Í ár kemur enginn vetur, haustið var milt og ekkert næturfrost fyrr en í janúar. Það kaupa heldur ekki allir vetrardekk,“ segir Gunnar. 

Spurður hvort sala Costco á dekkjum á Íslandi hafi haft áhrif á rekstur fyrirtækisins segir hann það líklegt. „Það er erfitt að keppa við fyrirtæki sem kaupir milljónir dekkja,“ segir hann og bendir einnig á að mikil samkeppni ríki á dekkjamarkaði sem hafi sett strik í reikninginn.

Í fyrra var reynt að selja rekstur fyrirtækisins en enginn áhugi var á honum, að sögn Gunnars.

Sólning var einn stærsti innflytjandi dekkja á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað árið 1941. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert