Flutningaskipið Rolldock Sea lagði af stað frá Hafnarfjarðarhöfn í gærmorgun með sementsskipið Fjordvik um borð, sem strandaði í Helguvík í vetur.
Verður Fjordvik siglt í sína hinstu ferð þar sem það fer í niðurrif í Belgíu. Umfangsmiklar aðgerðir hafa staðið yfir við höfnina við að komaskipinu í flotkví Rolldock Sea.
Fjordvik strandaði við hafnargarðinn í Helguvík aðfaranótt 3. nóvember sl. Áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-GNA, tókst að bjarga 15 manns frá borði við erfiðar aðstæður, en skipið lamdist við stórgrýttan hafnargarðinn meðan á aðgerðum stóð. Tæpri viku síðar tókst að draga skipið af strandstað og inn til Keflavíkur.
Þaðan var það síðan dregið yfir til Hafnarfjarðar þar sem það fór í þurrkví til að gera það flothelt til flutninga burtu af landinu.