Krefst þyngri dóms í Jökulsárlónsmáli

Hjólabátur við Jökulsárlón.
Hjólabátur við Jökulsárlón. mbl.is/Helgi Bjarnason

Saksóknari fer fram á þyngri dóm í máli karlmanns sem dæmdur var sekur fyrir manndráp af gáleysi vegna banaslyss sem varð við Jökulsárlón í ágúst 2015. Aðalmeðferð í málinu hófst í Landsrétti í morgun.

Maðurinn var skipstjóri á hjólabát sem var bakkað yfir kanadíska konu við Jökulsárlón í ágúst 2015. Konan varð undir afturhjóli bátsins með þeim afleiðingum að hún lést. Hinn ákærði var 22 ára þegar slysið varð og var án réttinda til að stjórna bátnum að því er sagði í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um málið.

Maðurinn neitaði sök fyrir Héraðsdómi Austurlands, sem dæmdi hann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og svipti hann ökuréttindum í hálft ár. Dómur féll í héraði í janúar í fyrra en maðurinn áfrýjaði málinu til Landsréttar þar sem aðalmeðferð hófst í dag.

Í málflutningi saksóknara í morgun kom fram að krafist er þyngri dóms, hvort sem væri þyngd refsingar eða lengd ökuréttarsviptingar. Þá er þess krafist að ákærði greiði allan málskostnað, rúmlega 2,7 milljónir, en í héraði var úrskurðað að kostnaðurinn yrði að hluta greiddur úr ríkissjóði.

Lögmaður mannsins fer fram á það að fallið verði frá öllum ákærum, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar. Þá skuli allur málskostnaður greiddur úr ríkissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka