„Staðan er óljós en við búumst við röskun, hvort sem það verður með beinum eða óbeinum hætti,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri vöruþróunar-, sölu- og markaðssviðs Bláa Lónsins þegar leitað er viðbragða hennar við ákvörðun Verkalýðsfélags Grindavíkur um verkfallsaðgerðir sem beinast munu gegn ferðaþjónustufyrirtækjum í aprílmánuði, ef samningar hafa ekki tekist.
Stjórn Verkalýðsfélags Grindavíkur samþykkti aðgerðaáætlun í gærkvöldi en hún verður ekki birt að svo stöddu, að sögn Harðar Guðbrandssonar, formanns félagsins. Hann segir að atkvæðagreiðsla um aðgerðirnar sé í undirbúningi og verði kynnt þegar að henni kemur. „Ég heyri ekki annað á mínum félagsmönnum en að þeir séu tilbúnir í að gera það sem þarf,“ segir Hörður.
Verkalýðsfélag Grindavíkur er í samfloti með Eflingu, VR og Verkalýðsfélagi Akraness í viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Félögin slitu viðræðum fyrir tæpum hálfum mánuði og hafa verið að birta aðgerðaáætlanir sínar og hrinda þeim í framkvæmd með atkvæðagreiðslum.
Aðgerðir Eflingar og VR eru „skæruverkföll“ sem beinast gegn fyrirtækjum í hópferðaakstri og tilgreindum hótelum í síðari hluta þessa mánaðar og í apríl og síðan verður ótímabundin vinnustöðvun frá og með 1. maí. Aðgerðirnar sem Verkalýðsfélag Akraness hyggst efna til eru víðtækari, ná einnig til veitingaþjónustu og afþreyingarfyrirtækja en felast eingöngu í ótímabundnu verkfalli frá 12. apríl.
Félögin fjögur segja að aðgerðirnar séu hluti af sömu aðgerðaáætlun. Hvort sem aðgerðir Verkalýðsfélags Grindavíkur eru í líkingu við það sem stendur til á Akranesi eða í Reykjavík verður röskun á ferðaþjónustu í Grindavík, þar á meðal hjá Bláa Lóninu sem rekur baðstað, veitingasölu, hótel og hópferðir auk annars.