„Þetta kemur skemmtilega á óvart, enda bæði flott verðlaun og margar vandaðar fræðibækur tilnefndar þetta árið,“ segir Kristín Svava Tómasdóttir, sem nú á fimmta tímanum hlaut viðurkenningu Hagþenkis fyrir framúrskarandi rit á árinu 2018.
Viðurkenninguna fær hún fyrir bókina Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar sem Sögufélag gaf út. Fær Kristín Svava 1.250.000 krónur að launum.
Viðurkenning Hagþenkis, sem að þessu sinni var veitt í 32. sinn, telst til virtustu og veglegustu verðlauna sem fræðimönnum og höfundum kennslugagna geta hlotnast. Öll fræðirit og prentuð námsgögn eða önnur miðlun fræðilegs efnis til almennings sem komu út á íslensku árið 2018 komu til greina við veitingu viðurkenningarinnar óháð útgefanda eða tilnefningum.
Spurð hvort hún hafi verið tilnefnd áður svarar Kristín Svava því neitandi. „Enda er þetta bara fyrsta fræðibókin mín,“ segir Kristín Svava, sem er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, ljóðskáld og annar ritstjóra tímaritsins Sögu. Hún útskrifaðist með MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2014, en Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar er byggð á meistararitgerð hennar. Á umliðnum árum hefur Kristin Svava sinnt ýmiss konar rannsóknum, kennslu og þýðingum og starfað á söfnum við sýningagerð og leiðsagnir.
Árið 2016 kom út þýðing hennar á ljóði kúbanska skáldsins Virgilio Piñera, Þungi eyjunnar, og ári síðar átti hún grein um bókasafn Samtakanna ’78 í greinasafninu Svo veistu að þú varst ekki hér. Hinsegin sagnfræði og hinsegin saga á Íslandi, sem tilnefnd var til Menningarverðlauna DV árið 2017. Síðasta ljóðabók Kristínar Svövu, Stormviðvörun frá 2015, kom út í Bandaríkjunum árið 2018 undir titlinum Stormwarning og var þýðing K.B. Thors á bókinni tilnefnd til PEN-verðlaunanna í flokki þýddra ljóða. Ítarlegt viðtal við Kristínu Svövu má lesa í Morgunblaðinu á morgun, fimmtudag.
Að vanda stóð viðurkenningarráð Hagþenkis að valinu á verðlaunabók ársins, en í því sátu að þessu sinni Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur, Ásta Kristín Benediktsdóttir íslenskufræðingur, Henry Alexander Henrysson heimspekingur og Svanhildur Kr. Sverrisdóttir menntunarfræðingur.
Í umsögn ráðsins um verðlaunabókina segir: „Stund klámsins er sannkallað brautryðjandaverk; fyrsta ritið um sögu kláms á Íslandi og eitt af þeim fyrstu sem fjalla um sögu kynverundar í íslensku samhengi. Það er að stofni til meistaraverkefni Kristínar í sagnfræði við Háskóla Íslands en hún hefur lagt mikla vinnu í verkið síðan gráðan var í höfn; bókin sem við höfum nú í höndunum er afrakstur áralangra rannsókna á þessu áður ókannaða sviði Íslandssögunnar. […] Eitt af meginviðfangsefnum bókar Kristínar er sjálf skilgreiningin á hugtakinu [klámi] og hún er alls ekki einföld. Á íslensku hefur skapast sú hefð að nota orðið klám í víðum skilningi, bæði um kynferðislegt efni og um það sem er talið ósæmilegt og brjóta gegn almennu velsæmi. Á sumum tungumálum er hins vegar greint þarna á milli, til dæmis er talað um „pornography“ og „obscenity“ á enskri tungu. Á íslensku eru grafísk kynlífsmyndbönd því klám, en líka hvaðeina sem gæti ofboðið fólki.
Stund klámsins er þannig saga hugmyndar – saga hugtaks, hvernig það hefur verið notað á ólíkan hátt og hverjir hafa ráðið því hvaða merking var lögð í það. Kristín skoðar átök og umfjöllun um klám á tímum kynlífsbyltingarinnar á sjöunda og áttunda áratugnum og leitar meðal annars fanga í blaðaumfjöllunum og dómskjölum. […] Sagan sem borin er á borð í Stund klámsins á erindi við alla sem velta fyrir sér hinni samfélagslegu sýn á kynverund Íslendinga. Útgáfan er vegleg og glæsilega gerð af hendi Sögufélags og bókin er auk þess ríkulega skreytt myndum sem undirstrika og auka innihald hennar.“