Styðja Jórunni og Ragnheiði

Jórunn Edda á mótmælum í innanríkisráðuneytinu árið 2016.
Jórunn Edda á mótmælum í innanríkisráðuneytinu árið 2016. mbl.is/Andri Steinn

Aðstandendur Hauks Hilmarssonar og annað stuðningsfólk þeirra Jórunnar Eddu Helgadóttur og Ragnheiðar Helgadóttur, úr samtökunum No Borders sem eru ákærðar fyrir að hafa tafið brottför flugvélar, komu saman á Lækjartorgi í kvöld.

Aðalmeðferð í máli þeirra Jórunnar Eddu og Ragnheiðar hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Á Lækjartorgi voru flutt minningarorð um Hauk og baráttu hans fyrir réttindum flóttafólks, kveikt á kertum í minningu flóttamanna sem hafa látist án þess að komast í öruggt skjól og stuðningi lýst við Jórunni Eddu og Ragnheiði Freyju, að því er kemur fram í tilkynningu.

Eftirfarandi yfirlýsing frá foreldrum Hauks var lesin upp á samkomunni:

„Í dag, þann 6. mars 2019, voru Jórunn Edda Helgadóttir og Ragnheiður Freyja Kristínardóttir dregnar fyrir dóm. Þær Jórunn og Freyja eru meðlimir í No Borders og höfðu gert sig sekar um að standa upp í kyrrstæðri flugvél og lýsa yfir samstöðu með manni sem var á flótta undan Boko Haram, öfgahreyfingu sem vill koma á [í]slömsku ríki í Afríku.

Þann 6. mars 2018, fyrir nákvæmlega einu ári, bárust þær fréttir að Haukur Hilmarsson hefði ekki skilað sér eftir loftárás Tyrkja á Afrín. Eins og öllum hér mun kunnugt hafði Haukur gengið til liðs við varnarsveitir Kúrda í Sýrlandi, þar sem Íslamska ríkið hafði náð fótfestu, gengið fram með skefjalausu ofbeldi og hrakið fjölda fólks á flótta. Nokkrir af félögum Hauks, sem tóku þátt í því að brjóta Íslamska ríkið í Raqqah á bak aftur, bíða nú dóms fyrir það í sínum heimalöndum að hafa sýnt Kúrdum samstöðu.

Mál Jórunnar og Freyju kallast einnig á við samstöðu Hauks með flóttamönnum á annan hátt. Fyrir um 10 árum voru Haukur Hilmarsson og Jason Slade ákærðir fyrir svipaða samstöðuaðgerð og Jórunn og Freyja. Þeir sýndu flóttamanni samstöðu með því að tefja brottför flugvélar. Einnig þeir voru dregnir fyrir dóm og haldið í biðstöðu í 2 ár.

Í dag eru í veröldinni meira en 68 milljónir flóttamanna og fólks sem er vegalaust í eigin landi. Flestir eru að flýja stríð, ofsóknir eða aðrar aðstæður sem eru svo skelfilegar að fólk er tilbúið til að hætta lífi sínu til að komast burt. Margir hafa verið á hrakhólum árum saman og koma allsstaðar að lokuðum dyrum. Þeir sem standa upp og sýna þessu fólki samstöðu með því að krefjast þess að það fái réttláta málsmeðferð, eru ekki heiðraðir fyrir framlag sitt til mannúðarmála, heldur handteknir og dregnir fyrir dóm. Má þá einu gilda hvort fólk hefur tekið þátt í vopnaðri baráttu eins og Haukur gerði í Sýrlandi, eða hvort um er að ræða fullkomlega friðsamlega aðgerð sem skaðar engan og veldur engri hættu, eins og aðgerð Jórunnar og Freyju.

Foreldrar Hauks Hilmarssonar lýsa hér með yfir fullum stuðningi við Jórunni og Freyju og skora á lögreglu, ákæruvald og dómstóla að einbeita sér frekar að alvöru afbrotum.

Samstaða er ekki glæpur.“

Samstöðufundur No Border á Lækjartorgi.
Samstöðufundur No Border á Lækjartorgi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka