Þurfum að læra að spara orku

Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku.
Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Öll starfsemin okkar er fyrst og síðast rekin í þeim tilgangi að sinna samfélaginu,“ sagði Páll Erland, framkvæmdastjóri Samorku, á ársfundi samtakanna í dag.

Ársfundurinn bar yfirskriftina „Orkustefna í mótun“ og fjallaði um áherslur Íslands í orkustefnu til framtíðar. Í erindi sínu benti Páll meðal annars á nýjustu skýrslu Alþjóðaorkuráðsins (World Energy Council). Þar hefur Ísland fallið niður listann á nokkrum sviðum samanborið við aðrar þjóðir og er í 18. sæti í heildina.

Ísland situr í 40. sæti er varðar orkuöryggi og hefur fallið úr 33. sæti frá síðustu skýrslu. Gagnvart orkujafnræði hefur Ísland fallið um fimm sæti, niður í það 21., vegna skorts á jöfnu orkuaðgengi um allt land. Þá hafi Ísland fallið um þrjú sæti og niður í það 24. er varðar sjálfbærni orku. Það sé vegna þess að ekki er jafnræði á milli framborðs og eftirspurnar orku.

„Eitt mælanlegt markmið orkustefnu getur verið að Ísland sé ekki í 18. sæti á þessum lista, heldur miklu ofar, því þetta er varla ásættanlegt,“ sagði Páll.

Úr skýrslu Alþjóðaorkuráðsins (World Energy Council).
Úr skýrslu Alþjóðaorkuráðsins (World Energy Council). Ljósmynd/Skjáskot

Ekki markmið að virkja sem allra mest

Í erindi sínu benti Páll á það að spár gera ráð fyrir að þörf fyrir raforku muni aukast gríðarlega. Spurningin sé hvaðan sú orka eigi að koma.

„Markmið orkufyrirtækjanna er ekki að virkja sem allra mest, heldur uppfylla þarfir þjóðarinnar. Afleiðingarnar eru svo miklar ef við gerum það ekki, ekki síst til þess að halda við og reka raforkukerfið,“ sagði Páll.

Það sé hins vegar ekki aðeins þörf fyrir raforku sem muni aukast. Önnur þörf muni einnig aukast, meðal annars fyrir heitt vatn.

„Orkustefnan þarf klárlega að fjalla um hitaveituna, enda er hún gríðarlega mikilvæg fyrir þjóðina.“

Þurfum að læra að spara orkuna

Páll velti því einnig upp hvernig samfélagið gæti litið út eftir 50 ár. Útflutningsverðmæti þyrftu að tvöfaldast og landsframleiðsla á mann þurfi að vera miklu meiri en hún er í dag.

„Hvað kallar þessi framtíðarsýn á mikla orku?“ spurði Páll, og benti á að aukinn hagvöxtur kallaði á meiri orku. Fylgni væri mikil á milli landsframleiðslu og orkunotkunar.

Á fundinum héldu einnig erindi þær Guðrún Sævarsdóttir, formaður starfshóps stjórnvalda um gerð orkustefnu, og Toril Johanne Svan, deildarstjóri í orkumálaráðuneyti Noregs. Þá flutti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ávarp.

Svan óskaði Íslendingum góðs gengis í gerð orkustefnu sinnar og að við hefðum öll þau úrræði sem þarf til þess.

Guðrún Sævarsdóttir er formaður starfshóps stjórnvalda um gerð orkustefnu.
Guðrún Sævarsdóttir er formaður starfshóps stjórnvalda um gerð orkustefnu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert