Vilja Skógaheiði lokaða fram í júní

Starfsmenn Umhverfisstofnunar fóru á staðinn og gerðu úttekt á gönguleiðinni …
Starfsmenn Umhverfisstofnunar fóru á staðinn og gerðu úttekt á gönguleiðinni á Skógaheiði. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun vill að gönguleiðin á Skógaheiði ofan við Fosstorfufoss verði lokuð fram til 1. júní vegna „verulegrar hættu á tjóni“.

Starfsmenn Umhverfisstofnunar fóru á staðinn og gerðu úttekt á svæðinu á mánudag og telja þeir ekki æskilegt að opna svæðið fyrir umferð ferðamanna fyrr en þá, að því er fram kemur í frétt á vef stofnunarinnar.

Lög um náttúruvernd kveða á um að staðfesting ráðherra sé áskilin ef loka á svæði lengur en í tvær vikur. Segir þar að ef „veruleg hætta er á tjóni af völdum mikillar umferðar eða vegna sérstaklega viðkvæms ástands náttúru getur Umhverfisstofnun ákveðið að takmarka umferð eða loka viðkomandi svæði tímabundið fyrir ferðamönnum að fenginni tillögu hlutaðeigandi sveitarfélags [Landgræðslunnar] 1) eða landeiganda eða að eigin frumkvæði.“

Hefur Umhverfisstofnun óskað eftir umsögnum og samráði varðandi framlengingu lokunarinnar og rennur frestur til að skila þeim inn fimmtudaginn 7. mars kl. 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert