Álftin, sem hafði fest gogg sinn í Red Bull-dós og var bjargað við Urriðakotsvatn á mánudaginn, útskrifaði sig sjálf fyrr í dag. Hafði hún verið færð í Húsdýragarðinn til aðhlynningar á mánudaginn, en þá var hún orðin aðframkomin og hafði lagst niður til að deyja.
Á Facebook-síðu Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að álftin hafi í morgun sloppið úr búri sínu og síðast hafi sést til hennar í hreindýragirðingunni þar sem hún hóf sig til flugs og hvarf upp í himininn. Gert er ráð fyrir að hún hafi tekið stefnuna á sín fyrri heimkynni í Garðabæ.