Ekki við hæfi að hlakka til verkfalla

Halldór Benjamín í húsnæði Ríkissáttasemjara.
Halldór Benjamín í húsnæði Ríkissáttasemjara. mbl.is/​Hari

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir mikilvægt að fólk vandi orðalag sitt þegar það ræðir um verkföll.

„Verkföll valda miklu tjóni í samfélaginu öllu og skapa álag á þeim vinnustöðum sem verkfallið tekur til. Ég legg áherslu á að við ræðum þessi mál af yfirvegun og mér finnst ekki við hæfi að forystufólk hlakki til verkfalla,“ segir Halldór Benjamín.

Þar á hann vafalítið við ummæli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, sem sagði eftir dóm Félagsdóms fyrr í dag að hún hlakkaði mjög til verkfallsins sem hefst á morgun.

Farið verði að lögum og reglum

Spurður út í dóminn, sem féll Eflingu í hag, segir Halldór mikilvægt að geta skotið deilumálum til Félagsdóms, bæði fyrir SA og verkalýðshreyfinguna. „Dómurinn í dag féll okkur ekki í hag en túlkun vinnulöggjafarinnar verður vonandi skýrari í framtíðinni hvað varðar þessa þætti,“ segir hann og viðurkennir að dómurinn hafi verið vonbrigði.

Hvað næstu skref varðar segist Halldór vera í sambandi við atvinnurekendur, beint í gegnum SA og Samtök ferðaþjónustunnar. „Við erum að upplýsa fólk um hverjar skyldur þeirra eru í verkfalli og hvaða reglur gilda um það. Við leggjum ríka áherslu á að farið sé að öllum lögum og reglum í einu og öllu. Það er mikilvægt að sýna stillingu og tryggja yfirvegun atvinnurekenda.“

Frá fundinum hjá ríkissáttasemjara í morgun.
Frá fundinum hjá ríkissáttasemjara í morgun. mbl.is/Eggert

SA fundaði með VR, Verkalýðsfélagi Grindavíkur, Verkalýðsfélagi Akraness og Eflingu hjá ríkissáttasemjara í morgun um nýjan kjarasamning og stóð fundurinn yfir í um hálftíma. Halldór segir að fundurinn hafi verið ágætur. Farið hafi verið yfir verklag og vinnubrögð og var hann að því leytinu til gagnlegur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert