Félagsdómur klofinn í flóknu máli

Fimm manna Félagsdómur skilaði niðurstöðu sinni í máli SA gegn …
Fimm manna Félagsdómur skilaði niðurstöðu sinni í máli SA gegn Eflingu í dag. mbl.is/​Hari

Guðna Á. Haraldssyni, einum fimm dómara sem kváðu upp dóm Félagsdóms í máli Samtaka atvinnurekenda gegn Eflingu – stéttarfélagi, fannst ekki hægt að líta fram hjá athugasemdum í lögskýringargögnum þess efnis að undanþága sem lýtur að póstatkvæðagreiðslum „geti ekki átt við um atkvæðagreiðslur um vinnustöðvun þegar einungis hluti félagsmanna leggur niður störf“ og því hafi Eflingu verið óheimilt að notast við almenna póstatkvæðagreiðslu þegar greidd voru atkvæði um þær verkfallsaðgerðir sem fram fara á morgun.

„Þannig greiddu ekki einungis þeir félagsmenn stefnda atkvæði er leggja eiga niður störf heldur aðrir félagsmenn hans sem ekki leggja niður störf. Það samrýmist ekki að mínu mati ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938 [um stéttarfélög og vinnudeilur]. Álit mitt er því að boðuð vinnustöðvun félagsmanna stefnda sé ólögmæt,“ segir í sératkvæði dómarans.

Meirihluti taldi ólögmæti ósannað

Meirihluti dómsins, þau Arnfríður Einarsdóttir, Kolbrún Benediktsdóttir, Valgeir Pálsson og Dagný Aradóttir Pind komust hins vegar að annarri niðurstöðu og töldu ósannað að atkvæðagreiðsla Eflingar um verkfallsaðgerðir morgundagsins hefði verið ólögmæt.

Aðila málsins greindi einkum á um það hvort Eflingu hefði verið skylt að haga kosningu um vinnustöðvun morgundagsins samkvæmt því sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 15 gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, eða hvort Eflingu hafi verið heimilt að velja á milli þess að haga kosningunni á þann veg sem kveðið er á um í 1. mgr. eða á þann hátt sem kveðið er á um í 2. mgr.

Varðandi það atriði sagði meirihluti dómsins að ósamræmis gætti að vissu leyti í þeim lögskýringargögnum sem þetta atriði snerti, en dómurinn vísaði til þess löggjafarvilja sem fram hefði komið í athugasemdum löggjafans í frumvarpi er lögum 80/1938 var breytt árið 1996 og til þess sem fram kom í ræðu Páls Péturssonar, þáverandi félagsmálaráðherra, er hann mælti fyrir því frumvarpi á þingi.

Meirihluti dómsins segir að af orðum ráðherra verði að telja að skýrt komi fram það álit að „í hinu umdeilda ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938 felist heimild til að bera atkvæði undir hlutaðeigandi félgsmenn [sic] þegar verkfall tekur einungis til hluta félagsmanna eða því er beint að takmörkuðum fjölda fyrirtækja, en ekki skylda.“

Niðurstaðan var því sú að Efling hefði getað valið að haga atkvæðagreiðslu sinni í samræmi við ákvæði 2. mgr. eða 1. mgr., eins og stéttarfélagið valdi að gera. Því er verkfall á morgun.

Allir dómarar voru sammála um að nokkurs vafa gætti um úrslit málsins og að af þeim sökum þótti rétt að málsaðilar bæru sinn kostnað hvor af málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert