Greiðslustöðvun Hópferðabíla Akureyrar

Hópferðabílar Akureyrar ehf. voru stofnaðir 2008. 2017 voru tæpir 30 …
Hópferðabílar Akureyrar ehf. voru stofnaðir 2008. 2017 voru tæpir 30 starfsmenn í vinnu þar. Mynd úr safni. Kristinn Ingvarsson

Hópferðabílar Akureyrar ehf. fengu heimild hjá Héraðsdómi Norðurlands 26. febrúar til þess að fara í greiðslustöðvun. Hún gildir í þrjár vikur. Félagið hefur því svigrúm þar til 19. mars til þess að sjá hvað það aðhefst í framhaldinu.

Þetta fékk mbl.is staðfest hjá Héraðsdómi Norðurlands. Fréttablaðið greindi frá þessu. Þar er sömuleiðis bent á slæma stöðu rútufyrirtækja íslenskra almennt. Fimm stærstu töpuðu skv. Viðskiptablaðinu 319 milljónum króna á árinu 2017.

Starfsmenn Hópferðabíla Akureyrar eru ekki í stéttarfélögum sem eru á leið í verkfall, þannig að ljóst er að aðrar orsakir eru aðdragandinn að þessari greiðslustöðvun. Nú má ætla að félagið meti stöðu sína gagnvart kröfuhöfum og taki svo ákvarðanir um næstu skref.

Árið 2017 störfuðu tæpir 30 manns hjá fyrirtækinu. Veltan var tæpur hálfur milljarður og taprekstur 12 milljónir.

Fyrirtækið er stofnað 2008 og þjónustar m.a. Strætó víða um Norðurland.

Ekki náðist í talsmenn félagsins við vinnslu þessarar fréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert