Hóteleigendur taka upp gúmmíhanskana

Hóteleigendur og hátt settir yfirmenn ganga í störf þerna sem …
Hóteleigendur og hátt settir yfirmenn ganga í störf þerna sem fara í verkfall á morgun. Hótelgestir munu búa við skerta þjónustu.

Hóteleigendur og hátt settir yfirmenn hótela í Reykjavík smella margir á sig gúmmíhönskunum í fyrramálið klukkan tíu til þess að gera herbergi klár fyrir gesti sem innritast á hótelin er líður á daginn. Verkfall þerna, sem var dæmt lögmætt af Félagsdómi í dag, hefst klukkan 10.

Á tveimur forsvarsmönnum meðal tveggja stærstu hótelkeðja landsins, Íslandshótela og CenterHotels, var ekki annað að heyra en að hótelin á þeirra snærum ættu að geta yfirstigið þessa erfiðleika. Staðan sé þó erfið og til lengdar gangi þetta augljóslega ekki.

Allt kapp verður lagt á að laga til í herbergjum þar sem von er á gestum en þeir sem fyrir eru á hótelinu munu klárlega búa við skerta þjónustu. Herbergin þeirra verða ekki þrifin á meðan þeir bregða sér frá og gestir geta þurft að sækja sér sjálfir nýjan umgang af handklæðum og slíku.

Mbl.is tók tali þá Kristófer Oliversson, formann FHG - fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og jafnframt eiganda og framkvæmdastjóra CenterHotels, og Davíð Torfa Ólafsson, framkvæmdastjóra Íslandshótela.

Gæti dregist að afhenda herbergi 

Á sex hótelum CenterHotels eru um 600 gistirými og í þeim pláss fyrir 1.200 gesti. „Við reiknum með að komast yfir þetta,“ segir Kristófer. Hann segist að sjálfsögðu munu ganga í störf þerna á morgun. Hann segir að sum herbergi gæti dregist að afhenda, en að eigendur og þeir sem mega vinna muni kappkosta að hafa þau tilbúin í tæka tíð.

„Við spilum þetta eftir eyranu á hverjum stað fyrir sig,“ segir Kristófer. Hann gerir sér grein fyrir að ærið verk er fram undan. „Við tökumst ekki á við þetta með tilhlökkun, eins og einhverjir gera,“ segir hann.

„Mín tilfinning er að fólki líði ekki vel,“ segir hann. Hann segir að þó að nú geti hótelin staðið af sér storminn að mestu leyti þá verði öðru að heilsa ef kemur til frekari aðgerða. Frekari verkföll félagsmanna Eflingar eru boðuð 22. mars og 28. og 29. mars.

Hluti skaðans þegar skeður

Davíð Torfi segir innritanir á morgun færri en venjulegt er, en að það sé af ásetningi gert: um leið og forsvarsmenn hótelsins vissu af aðgerðunum var lokað fyrir bókanir þennan dag. Þannig segir Davíð Torfi hluta skaðans þegar skeðan með því móti. Íslandshótel reka 6 hótel í Reykjavík með ríflega 1.000 herbergjum.

Hann gefur ekki upp hver fjöldi þeirra er sem hefur heimild til og mun ganga í störf þerna á morgun en segir aðeins að þeir séu örfáir. Þessi hópur mun þá taka til hendinni eftir 10 en Davíð gerir ráð fyrir að nokkuð takist þó að þrífa af herbergjum áður en verkfallið skellur á, enda séu margir á morgun sem skrá sig snemma út.

„Ég tek í sama streng og Halldór Benjamín. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður sé spenntur fyrir verkföllum,“ segir Davíð Torfi. Hann segir rekstur Íslandshótela muni komast í gegnum aðgerðirnar á morgun, en að lengi geti þeir ekki haldið sér á floti við þessar aðstæður.

Viðskiptavinir hótelsins þurfa að upplifa skerta þjónustu, segir Davíð. Það eru gestir sem eru þegar innritaðir á herbergi sín og komu þannig í dag eða gær eða fyrr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert