Óskynsamlegt að fara í átakafarveg

Frá fundinum hjá ríkissáttsemjara í morgun.
Frá fundinum hjá ríkissáttsemjara í morgun. mbl.is/Eggert

Niðurstaða fundar í vinnudeilu VR, Verkalýðsfélags Grindavíkur, Verkalýðsfélags Akraness og Eflingar við Samtök atvinnulífsins var sú að finna þurfi leiðir til að blása lífi í kjaraviðræðurnar.

Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en fundur þeirra hjá ríkissáttasemjara í morgun stóð yfir í um hálftíma.

„Við þurfum að setjast niður og finna fleti á því hvernig við getum haldið áfram að ræða, bæði mál sem voru langt komin, og líka hvernig við getum nálgast stöðuna með einhvers konar viðræðum eða samtali,“ segir hann.

„Það eru allir sammála um hvert verkefnið er, það hleypur ekki frá okkur og sömuleiðis ekki sú staðreynd að við munum klára þetta með samningi. Það er bara spurning um á hvaða forsendum og hvenær. Aðilar voru sammál um að við þyrftum að nýta tímann fram að verkfallsboðun mjög vel.“

Frá fundinum í morgun. Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari stendur við borðið.
Frá fundinum í morgun. Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari stendur við borðið. mbl.is/Eggert

Þarf að setjast niður og klára málið

Spurður hvort hann sé bjartsýnni núna en fyrir fundinn segist hann eiga erfitt með að segja til um það. „Ég ræð það í stöðuna að það væri gríðarlega óskynsamlegt af okkar viðsemjendum að láta málin fara í þann farveg sem þau eru komin í, þ.e. í átakafarveg. Það væri skynsamlegast í stöðunni að setjast niður og reyna að klára þetta.“

Ekkert hefur verið ákveðið með nýjan fund en að sögn Ragnars Þórs verður unnið stíft, eins og ávallt, í baklandinu við að reyna að teikna upp lausnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert