Þokist í átt að auknu tjáningarfrelsi

Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndar forsætisráðherra um umbætur á …
Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndar forsætisráðherra um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis mbl.is/Eggert

Þarna er um að ræða fjögur frumvörp sem miða öll að því að rýmka tjáningarfrelsi, fjölmiðlafrelsi og upplýsingafrelsi,“ segir Eiríkur Jónsson, prófessor og formaður nefndar um umbætur á sviði tjáningar-, fjölmiðla-, og upplýsingafrelsis, við mbl.is. Nefndin kynnti seinni hluta tillagna að umbótum á þessum sviðum í Þjóðminjasafninu í dag.

Fjórum lagafrumvörpum hefur nú verið skilað til ráðherra, til viðbótar við þau fimm sem nefndin kynnti í október á síðasta ári. 

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á upplýsingalögum. Eiríkur segir ýmsar breytingar á þeim felast í frumvarpinu en ef til vill sé sú þýðingarmesta að gildissvið laganna sé útvíkkað.

Ráðgjafi leiðbeinir borgurum 

„Hingað til hafa lögin eingöngu tekið til stjórnsýslunnar og fyrirtækja í meirihlutaeigu hins opinbera. Þarna eru þau víkkuð út til dómsstóla og Alþingis. Þarna er líka verið að reyna að hraða málsmeðferð og efla frumkvæðisbirtingu stjórnvalda, allt til að tryggja aukið upplýsingafrelsi,“ segir Eiríkur.

Ný staða, ráðgjafi um upplýsingarétt almennings, verður til samkvæmt frumvarpinu. Það er embætti sem leiðbeinir m.a. borgurum sem vilja afla sér upplýsinga og er embættið þá hugsað til að beina fólki í réttar áttir. Auk þess er ráðgjafanum ætlað að veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi afgreiðslu beiðna og fylgjast með því hvernig opinberir aðilar rækja skyldur sínar á þessu sviði. 

Brugðist við tilmælum alþjóðastofnana

Í öðru lagi er um að ræða heildarlög um vernd uppljóstrara. „Hér er verið að bregðast við tilmælum Alþjóðastofnana og verið að horfa til ríkja sem nýlega hafa sett sér slík lög,“ segir Eiríkur. 

Frumvarpið nær til starfsmanna hins opinbera og starfsmanna á einkamarkaði. Opinberum starfsmönnum verður skylt að miðla upplýsingum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi en starfsmönnum í einkageiranum verður það heimilt. Eiríkur segir að uppljóstrun geti ekki valdið refsi- eða skaðabótaábyrgð og uppljóstrari megi ekki sæta óréttlátri meðferð í vinnu. 

Uppljóstrarinn af Klaustur Bar, Bára Halldórsdóttir, hefði ekki fallið undir þessi nýju lög vegna þess að þau snúa að því að starfsfólk á vinnumarkaði komi fram með upplýsingar. 

„Á einhverjum tímapunkti kemur vel til álita að útvíkka þá vernd sem í frumvarpinu felst. Enn sem komið er hefur áherslan á alþjóðasviðinu og hjá þeim ríkjum sem sett hafa sér lög um vernd uppljóstrara hins vegar verið á vernd starfsmanna og því eðlilegt að byrja þar. Rétt er hins vegar að benda á að Bára nýtur verndar samkvæmt undirliggjandi stjórnskipunarreglum hvað sem ákvæðum í almennum lögum líður,“ segir Eiríkur.

Hraðari málsmeðferð í lögbannsmálum

Í þriðja lagi kynnti nefndin frumvarp er lýtur að lögbanni á tjáningu. Með frumvarpinu er leitast við að tryggja að sýslumaður leggi ekki lögbann á tjáningu nema að undangengnu því mati sem nauðsynlegt þyki samkvæmt tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Þá er gert ráð fyrir því að fjölmiðlum verði heimilað að bera afstöðu sýslumanns undir dóm áður en lögbann er lagt á.

„Hingað til hefur það verið þannig að ef sýslumaður leggur á lögbann þá fer í gang staðfestingarmál sem getur tekið mjög langan tíma, eins og hjá Stundinni stóð þetta í rúmt ár. Þannig stóð lögbann í fjölmarga mánuði þrátt fyrir að héraðsdómur og landsréttur teldu lögbannið ekki ganga með tilliti til stjórnarskrárinnar,“ segir Eiríkur.

Hann segir hugsunina á bak við frumvarpið að hraða málsmeðferð, enda séu fréttir fallvölt vara, líkt og mannréttindadómstóll Evrópu hafi orðað það. Eins og í máli Stundarinnar gegn Glitni HoldCo. þá hefði Stundin getað leitað beint til dómstóla og fengið úr því skorið með skjótri málsferð hvort lögbann yrði lagt á eður ei. „Ef til ágreinings kemur er hugsunin að þetta taki mjög stuttan tíma,“ segir Eiríkur.

Blaðamenn þurfi ekki að blæða

Í fjórða lagi er ætlunin að bæta réttarstöðu blaðamanna til að þeir þurfi ekki að sitja uppi með greiðslur bóta vegna skrifa sinna. Markmiðið er að fjölmiðlafólk þurfi ekki að skoða stöðuna á bankareikningnum áður en það skrifar eitthvað enda sitji fjölmiðillinn á endanum uppi með bæturnar samkvæmt frumvarpinu. „Markmiðið er þannig að varna sjálfsritskoðun blaðamanna og færa reglurnar á þessu sviði í takt við það sem almennt tíðkast á vinnumarkaði, þar sem það er yfirleitt vinnuveitandi sem situr uppi með greiðslu bóta vegna starfseminnar en ekki starfsmaður á plani,“ segir Eiríkur. 

Hann segir að ef þessi níu frumvörp verði að lögum þá muni þokast verulega í átt að auknu tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsi. Hægt er að skoða frumvörp nefndarinnar í samráðsgátt stjórnvalda og skila inn umsögn um þau. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert