Starfsmanni á kampavínsklúbbnum Crystal við Tryggvagötu var vikið úr starfi eftir að í ljós kom að hún bauð upp á nektardans inni á staðnum. Þetta staðfestir Haraldur Jóhann Þórðarson, eigandi Crystal, í samtali við mbl.is.
Að hans sögn hefur ekki komið til brottreksturs af þessum sökum áður, en Haraldur segir nektardans brot á reglum staðarins.
Fjallað var um kampavínsklúbba í þætti Kveiks á þriðjudag, en útsendari þáttarins heimsótti Crystal og keypti dans og var boðið afsíðis. Konan fór úr næstum öllu, beraði á sér brjóstin og dansaði fyrir útsendara.
Aðspurður segir Haraldur að ekki séu lokuð rými inni á staðnum, enda sé það brot á reglugerðum.