Allt tiltækt lið slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu var kallað út nú í kvöld vegna elds sem logar í Seljarskóla í Breiðholtinu. Tilkynning um eldinn barst slökkviliðinu um áttaleytið í kvöld.
Mbl.is hefur eftir sjónarvotti að skíðlogað hafi í þakinu um tíma.
Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu var töluverður eldur í þakinu og hefur eldurinn einnig náð að komast inn í skólabygginguna. Varðstjóri segir þó slökkviliðsmenn telja að ekki sé mikill eldur í skólanum, en að ekki sé þó enn búið að staðfesta hvert umfang hans sé.
Uppfært: 21.10
Að sögn varðstjóra telja telja slökkviliðsmenn sig nú vera búna að ráða niðurlögum eldsins, en verið er að ganga um skólabygginguna til að tryggja að eldur leynist hvergi milli þilja.
Töluverðar skemmdir urðu í þaki hússins og svo tengibyggingu milli skóla og íþróttahús, en eldurinn komst þangað inn.