Eliza Reid forsetafrú var í gær sæmd heiðursverðlaunum ISAW samtakanna til framúrskarandi kvenna og hlaut hún þau fyrir stuðning við sjálfbæra þróun. Verðlaunin voru afhent við athöfn í Berlín, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu fá skrifstofu forseta Íslands.
Verðlaunin voru veitt í samstarfi við samtök ferðablaðamanna á Kyrrahafssvæðinu, Pacific Area Travel Writers Association, í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars.
Institute of South Asian Woman (ISAW) eru alþjóðleg góðgerðasamtök með aðsetur í Indlandi sem vinna að málefnum til stuðnings konum og stúlkum í löndum í Suður-Asíu, einkum Afganistan, Bangladess, Bútan, Indlandi, Maldíveyjum, Nepal, Pakistan og Srí Lanka.
Forsetafrúin hefur undanfarna daga tekið þátt í alþjóðlegri ferðasýningu í Berlín og ávarpað gesti hennar, samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningunni.