„Kostnaðarsamt viðhald við nýbyggða laug“

Sundhöll Reykjavíkur.
Sundhöll Reykjavíkur. mbl.is/Eggert

Áætlaður kostnaður vegna viðgerða á skemmdum sem urðu á Sundhöll Reykjavíkur í kuldakafla í janúar er um 1,8 milljónir króna. Meðal annars þurfti að loka útiklefum tímabundið vegna þess að hitastýrð blöndunartæki eyðilögðust.

Þetta kemur fram í svari umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um skemmdir á útiklefa Sundhallarinnar en svarið var lagt fram á fundi borgarráðs í gær.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram bókun þar sem fram kom að það verði að teljast óeðlilegt að fara þurfi í kostnaðarsamt viðhald við nýbyggða sundlaug sem tekin var í notkun fyrir aðeins rétt rúmu ári.

Fram kemur í svari umhverfis- og skipulagssviðs að rakaskemmdir hafi komið upp í nýja inni kvennaklefanum en efni á skápum í klefanum hefur ekki verið nógu rakaþolið. Ekki þurfti að loka klefanum við viðgerðir.

Auk þess þurfti að loka gufubaði um tíma vegna skemmda á klæðningu. Ný hurð úr plexigleri í stað glerhurðar ásamt nýjum lömum var komið fyrir milli anddyris og eimbaðsins. Eldri hurðin úr gleri hafði skemmst við notkun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert