Nauðganir á börnum hafa gjarnan verið rómantíseraðar í íslenskum bókmenntum. Til dæmis um það má nefna nauðgun Ólafs Ljósvíkings gegn 14 ára gamalli stúlku í Heimsljósi Halldórs Laxness. Fjölda annarra dæma um þessa tilhneigingu má finna í verkum Laxness, svo sem í Sölku Völku, Íslandsklukkunni og fleiri verkum.
Þetta kom fram í máli Helgu Kress á Hugvísindaþingi í Háskóla Íslands í dag. Bar erindi hennar heitið „Era gapriplar góðir“ – Um barnagirnd og barnaníð í íslenskum bókmenntum.
Hafði Helga meðal annars borið saman frásögn Laxness af samneyti Ólafs ljósvíkings og skýrslu af hinu raunverulega máli Magnúsar Ljósvíkings, sem persóna Ólafs er byggð á, úr dómabók Ísafjarðarsýslu þar sem nauðgun Magnúsar á ungri stúlku er lýst.
Fram kom í máli Helgu að hjá Laxness verði nauðgunin að eðlilegu kynlífi í augum stúlkunnar, sem samræmist ekki upplifun ófermdrar Ágústínu Guðjónu sem mætti fyrir rétti vegna málsins. Sá vitnisburður sem má lesa í raunverulegum dómabókum er á þá leið að atburðurinn hafi verið henni „sárnauðugur“ á meðan stúlkunni í verki Laxness finnist kynlífið með fullorðna manninum „eðlilegt og sjálfsagt.“
„Svona er hægt að breyta kynferðisofbeldi í ást, svona er hægt að rómantísera ofbeldi,“ sagði Helga.
Í erindi sínu gekk Helga út frá kviðlingi þeim í Njálu er Þórhildur skáldkona kveður manni sínum til að ávíta hann fyrir að stara á unga stúlku: „Era gapriplar góðir/gægr er þér í augum“. Hún setti það viðhorf til gapripla, sem hún sagði merkja eitthvað eins og stelpudrusla, í samhengi við Heimsljós, þar sem orðið er notað þegar menn ræðast á um ákæruna á hendur Ólafi Ljósvíkingi.
Vegna mikillar aðsóknar þurfti að færa fyrirlesturinn í stærri stofu, en auk Helgu voru þær Soffía Auður Birgisdóttir og Dagný Kristjánsdóttir með erindi. Soffía Auður flutti fyrirlesturinn „Þessi tvífætta villibráð“ og Dagný erindi sem hún kallaði Samsæri.
Soffía Auður ræddi það stef í nýlega útkomnum bókum íslenskra skáldkvenna, að ræða „heimleiðina“. Hún tók dæmi úr verkum Lindu Vilhjálms, Steinunnar Sigurðardóttur og Fríðu Ísberg af frásögnum kvenna af því að vera einar á ferð á leiðinni heim af skemmtun og vera hræddar við að vera beittar ofbeldi.