Trump eins og harðstjórar Shakespeare

Stephen Greenblatt, prófessor í bókmenntum við Harvard-háskóla, setti Hugvísindaþing í …
Stephen Greenblatt, prófessor í bókmenntum við Harvard-háskóla, setti Hugvísindaþing í háskólanum í dag. Eggert Jóhannesson

Af hverju hópar annars frjálst fólk sig saman og fylkir liði undir fánamerki valdasjúkra stjórnmálamanna eins og Donald Trump? Sumir eru raunverulega blekktir af persónutöfrum hans. Aðrir sjá sér hag í að lúta valdi hans. Enn aðrir eru einfaldlega máttlausir af ótta andspænis ofbeldistilburðum hans og hans manna.

Greina má hliðstæður í framvindu þjóðfélagsmála í Bandaríkjunum við hegðun harðstjóra í verkum Williams Shakespeare, eins og Henry sjötta, Ríkharðs annars og Ríkharðs þriðja, segir einn helsti Shakespeare-fræðimaður heims, Stephen Greenblatt. Hann er staddur á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands og flutti þar hátíðarræðu í hádeginu. Vangaveltur efst eru hans.

Hugvísindaþing var sett í morgun í 20. skipti í röð frá 1999, en fyrst var það haldið 1996. Hátíðarfyrirlesarinn Greenblatt er prófessor í bókmenntum við Harvard-háskóla og er sagður faðir nýsöguhyggjunnar, sem er stefna í bókmenntagreiningu. Guðmundur Hálfdánarson forseti Hugvísindasviðs kynnti Greenblatt til leiks.

Þingið er í dag og á morgun og dagskrá þess má finna hér. Fleiri tugir fyrirlestra eru í boði.

Trump og harðstjórar Shakespeare

„Það er eitthvað í okkur, sem leyfir hrottalegu fólki að brjótast til valda. Í rannsókn sinni á harðstjórn eru leikrit Shakespeare viðvörun um misnotkun pólitísks valds, sérstaklega að því marki sem þessu valdi getur verið misbeitt,“ sagði Greenblatt í ræðu sinni.

Greenblatt nefndi fræga tilvitnun í Henry sjötta, í leikriti Shakespeare, sem hvetur fylgismenn sína til þess að „drepa alla lögmennina!“ Þannig segir Greenblatt að karaktersköpun Shakespeare á harðstjórum sínum gefi forsmekk að viðhorfum sem gætir hjá Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem hann gefur í skyn að hafi andúð á menntun og skólum, rétt eins og harðstjórar Shakespeare.

Að metta fjölmiðla af ýmsum mishaldbærum upplýsingum, sbr. umræðuna um falsfréttir, sagði Greenblatt að væri jafngildi hegðunar illrætinna valdamanna í verkum Shakespeare sem smeygja sér inn í hug hirðar sinnar og heilaþvo hana til fylgispektar við sig.

Hann segir harðstjórana í leikritum Shakespeare hafa viljað skemma prentsmiðjurnar og þannig þagga niður umræðuna en nútímaharðstjóra, og ekki var komist hjá því að túlka það heiti sem vísun í Donald Trump, þagga niður umræðuna með öðru móti: með því að fylla fjölmiðla af rangfærslum.

Greenblatt gaf út bók síðasta vor sem nefnist Tyrant: Shakespeare on Politics. Hún fjallar um þjóðmálaástandið í Bandaríkjunum í ljósi verka Shakespeare.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert