Yfir 41 þúsund undirskriftir hvaðanæva úr heiminum hafa safnast í undirskriftasöfnun til stuðnings Nöru Walker. Hún var dæmd í 18 mánaða fangelsi í desember, þar af 15 skilorðsbundna, fyrir að hafa bitið 2,5 sentimetra bút af tungu sambýlismanns og fyrir að hafa ráðist á aðra konu.
Walker hóf afplánun í fangelsinu á Hólmsheiði 20. febrúar og kom hópur saman fyrir utan fangelsið og mótmælti því að henni væri gert að afplána dóminn. Mál hennar hefur vakið mikla athygli en að sögn móður hennar, Jane Walker, var um sjálfsvörn vegna alvarlegs heimilisofbeldis að ræða.
Nara Walker hefur aldrei neitað því að hafa bitið manninn í tunguna en segir að hún hafi verið að verja líf sitt.
Aðstandendur Nöru Walker hafa einnig beðið forseta Íslands um að veita henni sakaruppgjöf.
Nara Walker hefur sent frá sér eftirfarandi bréf í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna:
„Í dag stöndum við saman og höldum baráttunni áfram. Óháð löndum, landamærum og tungutaki deilum við samhljóm breytinga. Við fögnum þeim árangri sem náðst hefur, minnumst kvennanna sem lögðu grunninn og bjuggu til vettvang fyrir rödd okkar á þessum degi.
Ég hafna þögninni sem viðbrögðum við heimilisofbeldi. Sögur okkar verða raddir okkar. Tímabært er að raddir okkar heyrist. Látum þær hljóma hærra en nokkru sinni fyrr; fyrir konur sem látið hafa lífið, fyrir konur sem enn lifa lífi sínu í skugga óttans, fyrir börn þeirra og komandi kynslóðir. Með samstöðunni lyftum við hver annarri og skilum skömminni. Stöndum saman á þessum degi og rjúfum þögnina.
Engin kona ein. Ég stend með ykkur!
Nara Walker“