„Viðurkenningin kom skemmtilega á óvart og mér hlýnaði svolítið um hjartarætur að það sé tekið eftir því sem ég er að gera,“ segir Aldís Kristín Árnadóttir Firman sem valin var á lista yfir 100 helstu frumkvöðlakonur í litlum og meðalstórum fyrirtækjum í Englandi, Norður-Írlandi, Skotlandi og Wales, auk eyja í grennd. Listinn var birtur í tengslum við alþjóðlegan baráttudag kvenna undir nafni herferðarinnar #ialso sem samtök frumkvöðlakvenna rekur.
„F:Entrepreneur er eins konar Félag kvenna í atvinnurekstri og #ialso herferðin leggur áherslu á að vekja athygli á konum sem eru frumkvöðlar og fyrirmyndir í fyrirtækjarekstri,“ segir Aldís sem fór með öðrum konum á listanum í teboð í breska þinghúsið í tilefni af verðlaununum.
Í fréttatikynningu frá samtökum frumkvöðlakvenna segir að fyrirtæki Aldísar, Lilou et Loïc, sem hún stofnaði ásamt sænskri vinkonu sinni, Malin Wright, hafi vaxið úr því að vera lítið fyrirtæki í London yfir í að vera verðlaunað alþjóðavörumerki með skrifstofur í London og New York.
Aldís sem er lögfræðingur að mennt er búsett í London ásamt breskum eiginmanni sínum og tveimur börnum. Hún segir verðlaunin sérstaklega ánægjuleg í ljósi þess hve mikið stökk út í óvissuna það hafi verið að breyta um starfsvettvang.
Fyrirtæki Aldísar Lilou et Loïc framleiðir hágæða ilmvörur fyrir heimilið.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.