Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir mikilvægt að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki starfi af ábyrgð og í góðu samstarfi við björgunarsveitir og Veðurstofu. „Fyrirtækin eru almennt að standa sig vel í þessu en það geta alltaf komið tilfelli þar sem eitthvað breytist eða aðstæður breytast skyndilega,“ segir Jóhannes Þór.
mbl.is hafði samband við Jóhannes vegna dómsins sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli áströlsku hjónanna sem urðu viðskila við hóp ferðamanna í vélsleðaferð með Mountaineers í janúar 2017. Daginn sem ferðin var farin hafði Veðurstofan gefið út stormviðvörun, en ferðin var eigi að síður farin.
Jóhannes vildi ekki geta tjá sig um þetta einstaka mál en sagði að hvort sem lagt væri út frá þessum dómi eða öðru væri það eilífðarverkefni íslenskrar ferðaþjónustu að upplýsa ferðamenn um örugga ferðamennsku á Íslandi. „Ferðaþjónustan hefur í samvinnu við Landsbjörg lagt mikið til Safetravel verkefnisins sem hefur miklu skilað. Ferðamaðurinn er vel upplýstur, eða hefur möguleika á að vera betur upplýstur en áður,“ segir Jóhannes Þór.
„Við hvetjum fyrirtækin til að vera í góðu samstarfi við yfirvöld, þá sem spá fyrir um veður og björgunarsveitirnar. Þá má nefna sérstaklega hálendisvakt björgunarsveitanna sem hefur staðið sig mjög vel í að þjónusta ferðamenn,“ segir Jóhannes Þór.
„Flest fyrirtæki sem vilja láta taka sig alvarlega í þessum efnum eru með reynda leiðsögumenn og eru vön þessum leiðum sem þau eru að fara. Þau eru ekki að hætta sér út í óvissu með leiðir eða skilyrði, en það getur alltaf komið eitthvað upp á sem menn sjá ekki fyrir. Þá þurfa menn í hverju tilfelli fyrir sig að meta hvort eitthvað mætti gera betur og læra af því,“ segir Jóhannes Þór. „En í heildina litið, miðað við hversu fjölbreytt íslensk náttúru- og ævintýraferðamennska er, þá erum við að standa okkur ansi vel í heildina litið. Alvarleg slys eru fátíð sem betur fer, og eru bæði fyrirtækin og ferðamennirnir að standa sig vel. En betur má ef duga skal. Þá má aldrei slaka á árvekninni gagnvart þessu.“