Sjaldan er ein báran stök og það átti sannarlega við í tilfelli Magnúsar Þórs Jónssonar, skólastjóra í Seljaskóla, en hann var staddur í Laugardalshöll að fylgjast með liðinu sínu ÍR tapa naumlega á móti FH í undanúrslitum Coca Cola bikarsins í handbolta þegar hann fékk símhringingu um að eldur væri kominn upp í Seljaskóla.
„Ég náði að svekkja mig á ÍR-leiknum áður en ég tók næturvaktina,“ segir Magnús Þór. Betur fór en á horfðist með eldsvoðann í grunnskólanum. Eldurinn var að mestu í klæðningu utanhúss og í loftræstistokkum. „Það þurfti að reykræsta og það eru ákveðin svæði sem þarf að meta hvað þurfi að gera við. Það skýrist væntanlega betur á morgun,“ segir Magnús.
Hann segir að skólastarf raskist ekki vegna eldsvoðans, en hugsanlega þurfi að hliðra til kennslu innan veggja skólans og nýta svæði til kennslu sem áður hafa ekki verið nýtt í slíkum tilgangi. „En að stærstum hluta er kennsluhúsnæðið í lagi,“ segir Magnús og bætir við að tæki og tól hafi ekki orðið fyrir skemmdum. Því megi þakka slökkviliði, sem réði niðurlögum eldsins í miklu snarhasti.
Eldsupptök eru ókunn að sögn Magnúsar en hann segir tæknideildina hafa mætt á vettvang um hádegi í dag til að rannsaka upptök eldsins.