Ungmennaþing Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) var haldið á Grand Hóteli eftir hádegi í dag. Þar komu saman ungmenni sem eru með fatlanir, raskanir eða langvinna sjúkdóma, systkini þeirra og ungmenni sem eiga fatlaða eða langveika foreldra, og ræddu um sýn sína á umhverfið og samfélagið.
Í samtali við mbl.is segir Þórdís Viborg, verkefnastjóri hjá ÖBÍ, að ungmennunum hafi verið skipt niður á borð og þau hafi í kjölfarið rætt ýmislegt sem brennur á þeim, svo sem skólakerfið, tómstundarstarf, íþróttir, aðgengismál og fleira. Hún segir að þrátt fyrir að enn eigi eftir að rýna í niðurstöður þingsins hafi í flestum umræðum komið fram að aðgengi í almennum skilningi væri gjarnan ábótavant, svosem aðgengi að tómstundarstarfi ýmsu, að félagslífsstarfi á vegum skóla o.fl. Ætlunin sé, þegar niðurstöður þingsins liggja fyrir, að afhenda þær stjórnvöldum, svo raddir ungmennanna fái að heyrast og hugmyndir þeirra að komast leiða sinna.
Ungmennaþingið var haldið í fyrsta skipti í dag og segir Þórdís að vel hafi tekist til, og stefnt sé að því að gera þingið að árlegum viðburði. Fleiri en félagsmenn ÖBÍ sóttu þingið en þangað mætti Salvör Nordal, umboðsmaður barna og tók stöðuna á unga fólkinu. Um skemmtiatriði sáu rappararnir og stuðboltarnir Jói Pé og Króli sem tóku nokkur lög við mikinn fögnuð viðstaddra.