Víða merki um langvarandi leka

Fossvogsskóli í Reykjavík.
Fossvogsskóli í Reykjavík. mbl.is/Eggert

„[M]iðað við umfang skemmda þá er umfangsmikilla viðgerða og endurnýjunar þörf í skólanum. Sem bráðalausnir þarf að horfa sérstaklega á helstu orsakir skemmda í rýmunum þar sem nemendur og starfsmenn eru. Ljóst er að framkvæmdir þessar eru aðeins til þess fallnar að gera rýmin betri m.t.t. íveru en ekki er hægt að ráðast í fullnaðarframkvæmdir á meðan nemendur og starfsmenn eru í skólanum.“

Á þessum orðum hefst minnisblað Verkís um Fossvogsskóla í Reykjavík þar sem grípa þarf til róttækra aðgerða vegna raka og myglu í skólahúsnæðinu. Munu framkvæmdir hefjast fljótlega og má því búast við mikilli röskun á hefðbundnu skólastarfi næstu vikurnar. Strax við lok skólaárs verður svo ráðist í enn umfangsmeiri framkvæmdir, en Verkís mun samkvæmt minnisblaði reglulega fylgjast með ástandinu í skólanum það sem eftir er skólaárs.

Langvarandi leki í skólanum

Í minnisblaði Verkís, dagsettu 6. mars sl., segir að skipta megi vandanum í fernt. Er í fyrsta lagi bent á að í þaki megi finna lélegt rakavarnarlag sem minnkar loftgæði í íverurýmum með óhreinu lofti, í öðru lagi eru loftræstikerfi skólans að hluta til gömul og í þriðja lagi þarf að bæta úr reglubundnum þrifum með áherslu á íverurými nemenda og starfsmanna. Þá bendir Verkís einnig á að í skólanum megi finna skemmdir vegna langvarandi leka.

mbl.is/Eggert

„Lekar hafa fundist víða í byggingunum. Hvergi ætti að láta slíkt viðgangast og réttast og hagkvæmast er í öllum tilfellum að ráðast strax í viðgerðir,“ segir í fyrrgreindu minnisblaði.

Morgunblaðið hefur undir höndum bréf sem tveir foreldrar barna í Fossvogsskóla sendu umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar 9. desember sl. Þar lýsa þeir yfir „þungum áhyggjum“ af aðbúnaði barna í Fossvogsskóla. Segjast þeir óttast að í skólanum búi börnin við óheilnæmar aðstæður „sem séu í raun skaðlegar heilsu þeirra“.

Íþróttasal skólans lýsa foreldrarnir þannig að „í loftum hans má sjá verulegar rakaskemmdir sem líklegt er að finna megi mygluskemmdir og/eða örveruvöxt í“.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert