Efling - stéttarfélag hefur kynnt tillögur að vinnustöðvunum á hótelum og hjá hópbifreiðafyrirtækjum sem hefjast skulu 18. mars nk. Samtök atvinnulífsins gera athugasemdir við tilhögun fyrirhugaðra verkfalla og munu bera lögmæti þeirra undir Félagsdóm.
Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu SA. Þar segir að Samtökin efist um lögmæti svokallaðra örverkfalla og vinnutruflana sem Efling hafi skipulagt, þar sem markmið sé að fólk mæti til vinnu en sinni ekki tilteknum starfsskyldum.
„Dæmi um það er vinnustöðvun sem felur í sér að starfsmaður á hóteli þrífi ekki tiltekin svæði eða hópbifreiðastjóri skoði ekki farmiða farþega. Ekki verður skilið á milli aksturs og þess að hleypa farþegum inn í hópbifreið,“ segir á vef SA.
SA telja enn fremur óheimilt að boða verkföll sem hafi í för með sér að félagsmaður gerist brotlegur við lög. Í því samhengi er tekið dæmi af bifreiðastjóra sem stöðvi bifreið klukkan 16.00 eða dæli ekki eldsneyti á bifreið, sem getur haft í för með sér að bifreið stöðvist og leiði hugsanlega til ábyrgðar bifreiðastjóra. Sama eigi við ef bifreiðastjóri leggi ekki bifreið í stæði og stöðvi þannig umferð.
„Einnig er lagt til af hálfu Eflingar að starfsmenn hliðri til reglubundnum störfum sínum eftir því sem þörf krefur til að þeim sé unnt að dreifa kynningarefni frá Eflingu. Það er ekki hlutverk stéttarfélaga að fela verkfallsmönnum verkefni á vinnudegi og önnur falli niður á sama tíma,“ kemur fram á vef SA.
Í Morgunblaðinu í dag kom fram að Samtök atvinnulífsins munu í dag eða á morgun kæra tilteknar verkfallsaðgerðir Eflingar fyrir Félagsdómi.