Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ætla að óska frekari skýringa frá Seðlabankanum vegna aðgerða bankans gegn Samherja. Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sagði í gær að málið yrði skoðað hjá nefndinni.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Katrínar vegna fyrirspurnar Fréttablaðsins. Már Guðmundsson seðlabankastjóri kemur á fund nefndarinnar á fimmtudag.
Umboðsmaður Alþingis gagnrýndi aðför Seðlabankans gegn Samherja á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á miðvikudag. SÍ beitti Samherja stjórnvaldssektum árið 2016 þrátt fyrir að ríkissaksóknari hefði áður komið þeirri afstöðu á framfæri við Seðlabankann að ekki væru lagaheimildir til staðar fyrir aðgerðunum.
Hæstiréttur felldi sektina úr gildi í nóvember og í kjölfarið óskaði Katrín eftir greinargerð frá bankaráði Seðlabankans.
Fram kemur í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Fréttablaðsins að óskað verði frekari skýringar frá Seðlabankanum, meðal annars um eftirfylgni með umbótum í stjórnsýslu bankans og um samskipti við fjölmiðla.