„Heilbrigðiseftirlitið hefur reglubundið eftirlit með húsnæði skóla sem felur meðal annars í sér sjónmat en heilu byggingarefni er ekki raskað við eftirlit,“ segir Rósa Magnúsdóttir, heilbrigðisfulltrúi Reykjavíkurborgar. Í nóvember síðastliðnum kom Fossvogsskóli vel út úr reglubundinni skoðun heilbrigðiseftirlitsins en skólanum verður lokað vegna skemmda næsta miðvikudag.
Hins vegar leiddi frekari úttekt verkfræðistofunnar Verkís á skólahúsnæðinu í ljós að ráðast þarf í miklar úrbætur á skólanum. „[M]iðað við umfang skemmda þá er umfangsmikilla viðgerða og endurnýjunar þörf í skólanum.“ Þetta kemur fram í minnisblaði sem er dagsett 6. mars síðastliðinn. Helstu athugasemdirnar lúta að þaki á íþróttahúsinu, slæmum loftgæðum, bæta megi þrif sem og að finna megi skemmdir vegna langvarandi leka.
Rósa bendir á að heilbrigðiseftirlitið vinni eftir reglugerð um hollustuhætti og leiðbeiningum Umhverfisstofnunar um inniloft, sem gilda á landsvísu og eru byggðar á útgefnu efni frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og systurstofnunum í Evrópu, Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum. Samkvæmt þeim kom skólinn vel út í síðasta eftirliti heilbrigðiseftirlitsins. Eftirlitið feli meðal annars í sér sjónræna úttekt, hljóðvist er könnuð o.fl. Einnig bregðast eftirlitsmenn við ábendingum starfsfólks ef eitthvað þykir óeðlilegt og þarf að skoða nánar eins og til dæmis rakaskemmdir. Engar slíkar athugasemdir bárust í eftirlitinu sjálfu í nóvember en þá var fulltrúi skólayfirvalda með í för né heldur hafa athugasemdir komið inn á borð eftirlitsins, að sögn Rósu.
Í úttekt Verkís kemur fram að loftgæði séu ekki góð. Spurð hvort heilbrigðiseftirlitið þyrfti að bæta úttektina þ.e.a.s að auka sýnatöku bendir Rósa á að það séu ekki til nein stöðluð opinber viðmiðunarmörk um loftgæði þegar kemur að sveppagróum. „Þau eru hvorki til hér á landi né á alþjóðavísu að mér vitandi. Það er erfitt að meta niðurstöðu úr sýnatöku ef við vitum ekki hvað mikið er mikið. Það gerir þetta viðkvæmt,“ segir Rósa. Loftgæði hvað varða hita, raka og koltvíoxíð er hægt að mæla og er gert við eftirlit ef tilefni er til, enda eru viðmiðunarmörk skilgreind.
Mannvit gerði úttekt á Fossvogsskóla að beiðni Reykjavíkurborgar. Þar kom meðal annars fram að sveppagró hafi fundist í öllum fimm sýnum sem tekin voru. Rósa tekur fram að sveppagró finnist í lofti bæði úti og inni og ekki er vitað hvað sé eðlilegt magn af sveppagró í rúmmetrum af lofti. „Fólk er misnæmt fyrir þessu og það á ekki að gera lítið úr því. Þarna er verið að verja börnin og við viljum að börnin eigi alltaf að njóta vafans,“ segir Rósa.