Karlmaður var á fimmtudaginn dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir nauðgun. Hafði maðurinn farið heim með konu sem hafði fyrr um daginn fagnað útskrift sinni, en þau voru bæði í sama vinahópi og var maðurinn besti vinur fyrrverandi kærasta konunnar.
Í dóminum kemur fram að konan hafi drukkið talsvert umrætt kvöld og á sjötta tímanum um morguninn var hún á leið heim úr bænum með skutlara með vinkonu sinni og manninum. Kemur fram í dóminum að konan hafi á þessum tíma dáið áfengisdauða og verið mjög ölvuð. Voru myndir því til staðfestingar sem vinkonan hafði tekið í bílnum.
Vinkonan fór fyrst heim, en maðurinn fór með konunni heim til hennar og hjálpaði henni inn í íbúðina. Sagðist konan hafa boðið honum að gista á heimilinu því hún vildi vera góð við hann þannig að hann þyrfti ekki að fara aftur niður og taka bíl áfram heim til sín.
Gistu þau bæði í svefnherbergi hennar, en konan segir að hún hafi þar aftur dáið áfengisdauða. Hún hafi svo vaknað við að hann var að hafa samfarir við hana. Maðurinn sagði hins vegar að samfarirnar væru með hennar vilja og að hún hafi farið að nudda læri hans og rass sem hafi leitt til samfaranna. Þegar konan áttaði sig á hvað var í gangi ýtti hún manninum frá sér og skipaði honum að fara sem og hann gerði.
Eftir þetta fór konan út og hringdi í fyrrverandi kærasta sinn sem kom stuttu síðar. Á sama tíma hafði konan hitt á vinkonur sínar sem voru á leið til vinnu. Sögðu þau öll að konan hafi á þessum tíma áfram verið greinilega ölvuð.
Maðurinn sendi konunni skilaboð þennan sama morgun og baðst afsökunar og sagðist líða hræðilega og vera miður sín vegna vinar síns sem var fyrrverandi kærasti konunnar. Fyrir dómi sagði hann að með afsökuninni væri hann leiður vegna vinar síns sem hefði verið kærasti konunnar áður. Sagði hann jafnframt að hann teldi hugsanlegt að konan ásakaði hann um kynferðisbrot þar sem hún hefði ekki viljað líta illa út í augum fyrrverandi kærasta síns.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að framburður konunnar hafi verið skýr og í fullu samræmi við framburð vitna. Þykir hann því trúverðugur og benti hegðun hennar í kjölfar brotsins sterklega til þess að hún hafi ekki verið samþykk því sem gerðist. Dómurinn telur hins vegar skýringar mannsins ekki trúverðugar. „Skýringar ákærða í þá veru að brotaþoli hafi hugsanlega séð eftir því að hafa verið með honum vegna fyrrverandi kærasta síns þykja fráleitar í ljósi þess sem á eftir kom.“
Þá segir jafnframt að manninum hafi ekki getað dulist ölvunarástand konunnar og að hún hafi ekki, sökum ölvunar og þreytu, getað spornað við samræðinu. Er því sannað að hann hafi haft samræði við konuna án hennar samþykkis þar sem hún lá sofandi í rúmi sínu og notfærði hann sér ástand hennar.
Auk þess að hljóta tveggja ára dóm var maðurinn dæmdur til að greiða konunni 1,5 milljónir í bætur auk þess að greiða málsvarnarlaun og sakarkostnað.